Vægi lykilatvinnugreina á Vesturlandi – nýr Hagvísir

VífillFréttir

Í dag kom út nýr Hagvísir Vesturlands. Þar var vægi (eða hlutfall) sex atvinnugreina í útsvarstekjum sveitarfélaga til skoðunar. Með þeim hætti má sjá hvort hagsmunir einstakra sveitarfélaga séu miklir eða litlir gagnvart tilteknum atvinnugreinum og þá hvort þær séu mjög háðar þeim. Til skoðunar voru sex atvinnugreinar sem segja má að séu landdreifðar atvinnugreinar: Sjávarútvegur, ferðaþjónusta, iðnaður, landbúnaður, hið opinbera og fiskeldi.

Meðal niðurstaðna var að hagsmunir sveitarfélaga eru ólíkastir í sjávarútvegi af þessum sex atvinnugreinum sem voru. Það þýðir að vægi atvinnugreinarinnar er ólíkast frá einu sveitarfélagi til annars. Þau eru því mis háð þessari atvinnugrein og breytileikinn er hvergi meiri. Ferðaþjónustan er önnur í þeirri röð og svo iðnaður án fiskvinnslu.

Á landsvísu, skilar hið opinbera stærstum hluta útsvars til sveitarfélaga á landinu öllu en iðnaður án fiskvinnslu kemur þar næst á eftir.

Athygli vekur hvað Vesturland á mörg sveitarfélög bæði í þremur efstu og neðstu sætum landssamanburðarins þegar horft var til vægis í útsvarstekjum þeirra. Snæfellsbær hampaði öðru sæti í sjávarútvegi og því efsta í fiskveiðum en Skorradalshreppur var í því neðsta í sjávarútvegi. Eyja- og Miklaholtshreppur var í þriðja efsta í ferðaþjónustu. Akraneskaupstaður og Hvalfjarðarsveit voru í þremur efstu sætunum í iðnaði án fiskvinnslu og Snæfellsbær og Eyja- og Miklaholtshreppur í þremur neðstu. Þá var Eyja- og Miklaholtshreppur í öðru sæti í vægi landbúnaðar. Skorradalshreppur og Dalabyggð voru í tveimur efstu sætunum í vægi hins opinbera en Snæfellsbær í þriðja neðsta. Þá voru Skorradalshreppur og Eyja- og Miklaholtshreppur í neðsta sæti er varðar vægi fiskeldis ásamt reyndar 17 öðrum sveitarfélögum með ekkert (0) vægi. Á þessu má sjá að uppbygging atvinnulífs á Vesturlandi er býsna ólík milli sveitarfélaga. Það gefur m.a. vísbendingar um að breytingar í ytra rekstrarumhverfi þeirra kemur mis hart niður á þeim. Hagvísinn má finna hér (SMELLIÐ).