Uppbyggingarsjóður úthlutaði styrkjum til 16 verkefna

SSVFréttir

Styrkhafar stilltu sér upp fyrir myndatöku

 

Síðastliðinn föstudag úthlutaði Uppbyggingarsjóður Vesturlands tæpum 14 milljónum til 13 atvinnu- og nýsköpunarverkefna og 20 milljónum til öndvegisstyrkja.

Úthlutunin fór fram í Menntaskóla Borgarfjarðar og var hluti af dagskrá frumkvöðladags Vesturlands undir heitinu „Nýsköpun í vestri“ sem er samstarfsverkefni Gleipnis, nýsköpunar- og þróunarseturs á Vesturlandi, Nývest, Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi og er styrkt af Sóknaráætlun Vesturlands. Dagskráin hófst kl. 13 og var blanda af fræðslu, reynslusögum og tengslamyndun ásamt úthlutun úr Uppbyggingarsjóði Vesturlands. Nýsköpun í vestri var opið öllum þeim sem hafa áhuga á nýsköpun og frumkvöðlastarfi, umhverfismálum og sjálfbærni.

Við úthlutunina kynnti Páll S. Brynjarsson Sóknaráætlun Vesturlands og Uppbyggingarsjóðinn en tilgangur sjóðsins er að styrkja menningar-, atvinnu- og nýsköpunarverkefni á Vesturlandi. Sjóðurinn úthlutar einu sinni á ári til menningarverkefna en tvisvar á ári til atvinnu- og nýsköpunarverkefna. Alls bárust 19 umsóknir að þessu sinni og hlutu 13 verkefni styrk og alls var úthlutað 13.845.000 kr.

Þá var einnig úthlutað öndvegisstyrkjum sem er gert á 3-4 ára fresti og er um að ræða veglegri styrki en í venjulegum úthlutunum. Þetta er í þriðja sinn sem sjóðurinn úthlutar  öndvegisstyrkjum og fá þeir umsækjendur sem eruð með áhugaverðustu
hugmyndirnar tækifæri til þess að vinna þær lengra áður en kemur til endanlegrar úthlutunar. Alls bárust 16 umsóknir og voru 5 valdar til að gera viðskiptaáætlun og skila henni inn til nefndarinnar.  Í pottinum í ár voru 20 mkr. sem fóru til þriggja verkefna sem voru valin í annari umferð til að hljóta öndvegisstyrki.

Hrafnhildur Tryggvadóttir og Helga Guðjónsdóttir atvinnuráðgjafar SSV kynntu verkefnin og Helena Guttormsdóttir formaður úthlutunarnefndar og Svala Svavarsdóttir verkefnastjóri Uppbyggingarsjóðs Vesturlands afhentu styrkhöfum blóm og viðurkenningarskjöl.

Það verður spennandi að fylgjast með framgangi þessara flottu verkefna og óskar SSV styrkhöfum innilega til hamingju!

ATVINNU- OG NÝSKÖPUNARSTYRKIR – SEINNI ÚTHLUTUN 2024

Vöggusett og smekkir til útsaums / Barnaból ehf. / 495.000

Hönnun og innleiðing nýrrar atvinnugreinar í brenndu kaffi / Hector Fabio Lopez Castano / 500.000

Hreinsun á bývaxi sem fellur til við hunangsframleiðslu / Álfheiður B Marinósdóttir / 650.000

Heilsueflandi styrkleikaþjónusta á Hótel Langaholti / Hótel Langaholt ehf. / 700.000

Vinnsla skógarafurða / Pavle Estrajher / 700.000

Framleiðsla úr sjávarmosa / Kumasi Máni Hodge-Carr / 700.000

Örplöntuframleiðsla á Hrym / Hólshlíð ehf. / 1.000.000

Simply the West / Einfaldlega Vesturland ehf. / 1.000.000

Guyde / Sara Björk Hauksdóttir og Jón Orri Sigurðarson / 1.000.000

Hátæknigróðurhús / Skoravík ehf. /1.200.000

Grundarfjörður Fish Tales Museum / Gerum það núna ehf. / 1.900.000

Virðissköpun haustþara / ALGÓ ehf. / 2.000.000

Til og Frá / Elín Margot Ármannsdóttir / 2.000.000

ÖNDVEGISSTYRKIR 2024

Íslenskar ilmkjarnaolíur / Hraundís Guðmundsdóttir / 3.000.000

Sjálfvirk framleiðsla íslenskra hljóðbóka / Grammatek ehf. / 7.000.000

Krossavík: Sánaþorp, sjópottar og lindarböð / Kópatjörn ehf. / 10.000.000