Nýlega voru haldnar starfamessur í öllum þremur framhaldsskólunum á Vesturlandi.
Starfamessurnar voru hluti af áhersluverkefni Sóknaráætlunar Vesturlands „Veldu Vesturland“ og var unnið í samstarfi SSV og framhaldsskólanna. Hver starfamessa var skipulögð og undirbúin af undirbúningshóp á hverju svæði sem í sátu fulltrúar SSV, viðkomandi framhaldsskóla, sveitarfélaga og grunnskóla. Áhersla var lögð á að kennarar og náms- og starfsráðgjafar innan grunnskólanna væru með í ráðum við undirbúninginn, enda markmiðið með verkefninu að kynna störf og menntun á Vesturlandi fyrir börnum í efstu bekkjum grunnskólanna og auðvelda þeim val til framtíðar.
Allir nemendur 9. og 10. bekk heimsóttu starfamessu og fengu afhent „vegabréf“ sem þau gátu nýtt sér sem leiðarvísi á staðnum og í áframhaldandi vinnu í skólunum. Yfir 40 aðilar tóku þátt á hverri starfamessu; allir framhaldsskólarnir kynntu nám sitt, nokkrir háskólar, sveitarfélög og opinberar stofnanir auk fjölda einkaaðila.
Þátttakendur gátu valið hvort þeir tóku þátt í einni eða fleiri starfamessum og ánægjulegt var hversu margir gátu tekið þátt á öllum stöðum. Störfin sem kynnt voru voru mjög fjölbreytt og nemendur voru mjög áhugasamir og sýndu störfum og námsleiðum mikinn áhuga. Öllum var boðið upp á hressingu áður en haldið var aftur heim í grunnskólana, og að lokum var boðið upp á opið hús eða atvinnulífssýningu fyrir almenning í hádeginu á hverjum stað.
Verkefnið tókst mjög vel upp, stjórnendur og starfsfólk framhaldsskólanna eiga mikið hrós skilið fyrir undirbúning og framkvæmd á starfamessum, þátttaka fulltrúa grunnskólanna í undirbúningi og fræðslu til krakkanna gegndi lykilhlutverki í að gera heimsóknir barnanna á starfamessu árangursríkar og gagnlegar.
Síðast en ekki síst var unga fólkið frábært, þau sýndu mikinn áhuga og tóku þátt og voru almennt til fyrirmyndar.
Að mati þátttakenda voru starfamessurnar mjög vel heppnaðar og mikilvægur liður í að auka samtal milli menntastofnana og atvinnulífs á Vesturlandi.
Hér fyrir neðan má sjá nokkrar myndir frá Starfamessunum









