Snjöll aðlögun í byggðaþróun – verkefnisstjóri DalaAuðs á ráðstefnu í Svíþjóð

SSVFréttir

Í vikunni sem leið tók verkefnisstjóri DalaAuðs þátt í vinnustofu á vegum Nordregio um snjalla aðlögun í byggðaþróun. Nordregio er norræn rannsóknarstofnun sem sérhæfir sig í skipulags- og byggðamálum. Auk starfsmanns SSV fóru tveir starfsmenn Byggðastofnunar og einn frá Austurbrú á vinnustofuna sem haldin var í Stokkhólmi 27. nóvember.

Vinnustofan var hluti af rannsóknarverkefni sem ber yfirskriftina Smart adaptation to rural realities: Approaches and practices in Nordic municipalities and regions, sem þýða mætti sem „Snjöll aðlögun að raunveruleika dreifbýlis: Aðferðir og framkvæmd í norrænum sveitarfélögum og landshlutum“. Sjá nánar hér.

Samtal við kollega í byggðaþróunarmálum á Norðurlöndunum

Þátttakendur í verkefninu voru frá fimm norrænum löndum þ.e. Svíþjóð, Danmörku, Noregi og Finnlandi auk Íslands og unnu öll staðbundið eða á landsvísu í byggðaþróunarmálum. Áskoranir víða á Norðurlöndunum í þróun byggða voru til umræðu á vinnustofunni en fólksfækkun í dreifbýli er raunin víðsvegar um Norðurlöndin og því áhugavert að skoða þróunina í norrænu samhengi. Gengur þetta verkefni út á hugmyndina um snjallar lausnir í byggðarlögum þar sem hefur verið fólksfækkun, sem sagt að aðlagast breyttum aðstæðum á snjallan hátt.

Var á vinnustofunni einkum leitað svara við eftirfarandi spurningum:

Í hverju felst snjöll aðlögun í dreifbýli og hver eru lykilatriðin sem tengjast slíkri aðlögun í norrænu og evrópsku samhengi? Hvernig virka snjallar aðlögunaráætlanir sem taka mið af langvarandi íbúafækkun í stjórnun/stjórnsýslu í norrænum byggðum, bæði staðbundnum og svæðisbundnum? Hverjir eru helstu kostir og hindranir í að vinna með sjónarhornið um snjalla aðlögun í stefnumótunarvinnu? Og að lokum hvaða stefnumótandi ráðleggingar er hægt að leggja fram á svæðisbundnum eða norrænum grundvelli til að bregðast við fækkun íbúa í dreifbýli?

Allt eru þetta stórar spurningar og var vinnustofan nýtt til að miðla lausnum og hugmyndum milli þátttakenda varðandi þessi umræðuefni.

Niðurstöður rannsóknar væntanlega birtar á árinu 2025

Gert er ráð fyrir að lokaniðurstöður rannsóknarinnar verði birtar á fyrri hluta næsta árs. Í þeim er ráðgert að settar verði fram leiðbeiningar um það hvernig nýta má hugmyndir um snjalla aðlögðun í stefnumótun sem snýr að byggðaþróun á svæðum þar sem er fólksfækkun. Þá er einkum horft til þess að snjöll aðlögun geti boðið upp á fyrirbyggjandi nálgun, nýtingu á staðbundnum styrkleikum og verið liður í að byggja upp þrautseig samfélög. Allt snýst þetta um snjalla aðlögun að lýðfræðilegum breytingum sem við blasa í norrænum samfélögum, það er að gera samfélögin betri jafnvel þó íbúum fækki eða þeim hafi fækkað.