Nýverið skiluðu SSV og Fjórðungssambandi Vestfirðinga af sér viðmikilli skýrslu til umhverfis, orku og loftlagsráðherra með tillögum um framtíð verndarsvæðis Breiðafjarðar. Í skýrslunni er farið yfir verndargildi verndarsvæðisins og áhrif þess, tækifæri og áskoranir á samfélag, byggð og atvinnulíf. Yfirstjórn verkefnisins var í höndum stýrihóps skipuðum af ráðherra undir formennsku Sigríðar Finsen. Auk SSV og FV komu ýmsir aðilar að verkefninu. Jakob Jóhann Stakowski starfsmaður Breiðafjarðarnefndar vann stöðugreiningu fyrir Breiðafjarðarsvæðið, Vífill Karlsson hagfræðingur hjá SSV greindi hagrænt virði auðlinda Breiðafjarðar og KPMG vann sviðsmyndagreiningu um helstu drifkrafta og mögulega þróun í samfélögunum við Breiðfjörðinni.
Á grundvelli þessara greininga voru unnar tillögur um hvernig mætti skapa jafnvægi á milli verndar og nýtingar auðlinda þannig að saman færi sjálfbærni auðlinda og blómleg byggðaþróun. Tillögurnar voru kynntar á íbúafundum í Stykkishólmi, á Laugum í Sælingsdal og Birkimel á Barðaströnd. Um 100 manns sóttu fundina, tóku tillögurnar til umræðu og veittu gagnlegar ábendingar um það sem betur mætti fara. Sigurborg Hannesdóttir ráðgjafi hjá Ildi stýrði íbúafundunum.
Skýrsluna og þær greiningar sem vísað er til má nálgast á síðu verkefnisins: Framtíðarmöguleikar Breiðafjarðar