Samningur um Áfangastaðastofu Vesturlands undirritaður

SSVFréttir

ÞÓRDÍS KOLBRÚN R. GYLFADÓTTIR, FERÐAMÁLA-, IÐNAÐAR- OG NÝSKÖPUNARRÁÐHERRA OG LILJA BJÖRG ÁGÚSTSDÓTTIR, FORMAÐUR SSV VIÐ UNDIRRITUN SAMNINGSINS.

Þann 1. mars undirrituðu þær Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir atvinnu- og nýsköpunarráðherra og Lilja B. Ágústsdóttir formaður SSV samstarfssamning um stofnun Áfangastaðastofu Vesturlands.  Markmið samningsins er að efla stoðkerfi ferðaþjónustunnar og stuðla að framþróun ferðamála og uppbyggingu á Vesturlandi til að efla landshlutann sem eftirsónarverðan áfangastað.  Eitt af meginverkefnum áfangastaðastofu er að vinna og gefa út Áfangastaðaáætlun Vesturlands þar sem sett eru fram stefnumótun, framtíðarsýn og áhersluverkefni í ferðamálum.  Áfangastaðastofa heldur svo utan um þau verkefni sem sett eru fram í Áfangastaðaáætluninni og er jafnframt samstarfsvettvangur ríkis, sveitarfélaga og ferðaþjónustu á svæðinu.

Áfangastaðastofa mun sinna fjölþættum verkefnum sem hafa það að leiðarljósi að efla ferðaþjónustu, styðja við innviðauppbyggingu og stuðla að vöruþróun, til að skapa aðstæður fyrir fólk að dvelja lengur og njóta á Vesturlandi.  Starfsmenn Áfangastaðastofu verða þrír; Margrét Björk Björnsdóttir sem veitir henni forstöðu, Björk Jóelsdóttir og Thelma Harðardóttir.  Þær hafa allar starfað áður fyrir Markaðsstofu Vesturlands sem áfram verður til en mun hér eftir alfarið sinna markaðssetningu fyrir ferðaþjónustu á Vesturlandi.

Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og Lilja Björg Ágústsdóttir, formaður SSV við undirritun samningsins.