Sameiginlegur fundur Ungmennaráðs Vesturlands og stjórnar SSV

SSVFréttir

Ungmennaráð Vesturlands og stjórn Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi (SSV) héldu sameiginlegan fund miðvikudaginn 2. desember s.l.   Margt var til umræðu enda er hlutverk ungmennaráða að miðla upplýsingum og áherslum til sveitarstjórna. Meðal annars ræddi Ungmennaráð Vesturlands búsetumöguleika ungs fólks á Vesturlandi og hvað tæki við fyrir ungt fólk sem væri að ljúka námi og vildi setjast að í sinni heimabyggð.  Í því samhengi viðruðu aðilar ráðsins þær hugmyndir að stofna hagsmunafélag ungs fólks af landsbyggðinni sem þurfa tímabundið að búa fjarri heimilum sínum, t.d. vegna náms. Þá var rætt um þátttöku ungs fólks í samfélagsmálum og hvernig mætti auka áhuga ungs fólks í lýðræðislegum verkefnum.  Þá kom fram áhugi á því að halda Ungmennaþing á árinu 2021 og var kallað eftir stuðningi SSV við þinghaldið, líkt og gert var 2018 þegar fyrsta ungmennaþingið fór fram.

Stjórn SSV þakkaði Ungmennaráði fyrir vel unnin störf og munu skilaboð þeirra nýtast vel í starfi samtakanna.

Mynd: Gunnhildur Lind Hansdóttir

Ungmennaráð Vesturlands var stofnað í janúar árið 2020 og í ráðinu sitja aðalmenn frá sjö starfandi ungmennaráðum á Vesturlandi. Ráðið hittist reglulega og ræðir hin ýmsu mál sem brenna á ungu fólki í dag. Í ráðinu sitja Guðbjörg Halldórsdóttir formaður f.h. Stykkishólmsbæjar, Guðjón Snær Magnússon varaformaður f.h. Akraneskaupsstaðar, Bjarki Rúnar Ívarsson f.h. Hvalfjarðarsveitar, Bjartur Daði Einarsson f.h. Borgarbyggðar, Margrét Vilhjálmsdóttir f.h. Snæfellsbæjar, Soffía Meldal Kristjánsdóttir fyrir hönd Dalabyggðar og Tanja Lilja Jónsdóttir fyrir hönd Grundarfjarðarbæjar.  Með ráðinu starfa æskulýðs- og tómstundarfulltrúarnir Ívar Orri Kristjánsson frá Akraneskaupsstað og Magnús Bæringsson frá Stykkishólmsbæ.  Sigursteinn Sigurðsson verkefnastjóri velferðarmála hjá SSV starfar einnig með ráðinu.