Rúmar 50 milljónir í uppbyggingu ferðamannastaða á Vesturlandi

SSVFréttir

6 verkefni á Vesturlandi hljóta styrk úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða 2023 fyrir alls 50,8 milljónir. Alls hlutu 28 verkefni styrk en Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra tilkynnti um úthlutunina í Vík í Mýrdal þann 14. apríl síðastliðinn.

Framkvæmdasjóður ferðamannastaða starfar samkvæmt lögum nr. 75/2011 og er markmið sjóðsins að stuðla að uppbyggingu, viðhaldi og verndun ferðamannastaða og ferðamannaleiða um land allt og styðja með því við þróun ferðaþjónustu sem mikilvægrar og sjálbærrar stoðar í íslensku atvinnulífi. Það er jafnframt markmið sjóðsins að stuðla að jafnari dreifingu ferðamanna um landið og styðja við svæðisbundna þróun. Framkvæmdasjóðurinn fjármagnar framkvæmdir á ferðamannastöðum og ferðamannaleiðum í eigu eða umsjón sveitarfélaga og einkaaðila. Heimilt er að fjármagna framkvæmdir sem snúa að öryggi ferðamanna, náttúruvernd og uppbyggingu, viðhaldi og vernd mannvirkja. Alls bárust 101 umsókn um styrki í ár og af þeim hlutu 28 verkefni styrk.

Gengið um Englandsslóðir ljósm: Hafþór Ingi Gunnarsson

Af þessum 28 verkefnum hlutu 6 verkefni á Vesturlandi styrk, það eru:

 1. Uppbygging á Englandi í Borgarbyggð að fjárhæð 24 millj.
  • Verkefnið snýr að uppbyggingu útivistarsvæðis á eyðijörðinni Englandi í Lundarreykjadal í Borgarfirði, en styrkur til undirbúnings hafði áður verið veittur úr sjóðnum. Á staðnum er gömul hlaðin sundlaug, friðlýst virki og fleiri minjar sem tengjast sögu staðarins. Verkefnið rímar vel við áherslur sjóðsins varðandi náttúruvernd og uppbyggingu innviða á sögufrægum stað.
 2. Innviðauppbygging, náttúruvernd og öryggismál í selafjörunni við Ytri-Tungu á Snæfellsnesi að fjárhæð: 15,5 millj.
  • Selaskoðun nýtur vaxandi vinsælda. Hér er um að ræða fjölsóttan áfangastað sem er á áfangastaðaáætlun svæðisins og mun verkefnið stuðla að bættri umgjörð um slíka ferðamennsku á staðnum. Hér er þó ekki um fulla umbeðna styrkupphæð að ræða þar sem ekki er veittur styrkur í bílastæði, afleggjara frá þjóðvegi ásamt innviðum sem tengjast vatni og rafmagni.
 3. Glymur í botni Hvalfjarðar að fjárhæð: 5,9 millj.
  • Gönguleiðin að Glym nýtur mikilla vinsælda en er torfarin og varasöm á köflum. Í verkefninu felst að gera umbætur á gönguleið upp með Glymsgljúfri að austanverðu þar sem áhersla verður lögð á lágstemmda uppbyggingu stíga og að nýta það efni sem til staðar er. Verkefnið fellur því vel að áherslum sjóðsins um náttúruvernd, bætt öryggi og aðgengi.
 4. Hönnun á aðgengi og sturtuaðstöðu á Langasandi að fjárhæð: 4,5 millj.
  • Verkefnið er gott innviðaverkefni á Langasandi á Akranesi sem er bæði vinsæll meðal ferðamanna og heimamanna. Verkefnið passar vel við markmið sjóðsins um öryggi og innviðauppbyggingu. Ekki er um fulla umbeðna styrkupphæð að ræða.
 5. Áningarhólf við Skjöld í Stykkishólmi -Helgafellssveit að fjárhæð: 0,5 millj.
  • Styrkurinn felur aðallega í sér girðingarvinnu. Áningarhólfið verður endurnýjað og stækkað með handafli því ekki verður farið með vélar um svæðið vegna legu og tegundar lands (hluti votlendi). Lengd girðingar er um 800 metrar. Verkefnið endurspeglar vel meginmarkmið sjóðsins, er varðar náttúruvernd og öryggi.
 6. Gönguleið: Fellsströnd-Skarðsströnd að fjárhæð: 460 þús.
  • Hér er um að ræða gott verkefni sem fellur mjög vel að markmiðum sjóðsins um náttúruvernd og öryggi. Verkefnið er inni á áfangastaðaáætlun Vesturlands og styður við uppbyggingu á veiku svæði. Ekki er verið að styrkja gerð kynningarefnis.

Nánar um úthlutunina í ár má lesa hér á ferdamalastofa.is