Ratsjáin – verkfæri og verkefni til framfara fyrir ferðaþjónustuna

SSVFréttir

Sjö landshlutasamtök í samstarfi við Íslenska ferðaklasann og RATA, hafa tekið sig saman um að bjóða stjórnendum í ferðaþjónustu og tengdum greinum þátttöku í nýrri útgáfu af Ratsjánni, sem er sameiginlegt verkefni til að efla viðkomandi fyrirtækin til að takast á við ýmsar áskoranir á erfiðum tímum. Verkefnið hefst í janúar og lýkur um miðjan apríl 2021.

Ratsjáin er ákveðið verkfæri ætlað stjórnendum í ferðaþjónustu og tengdum greinum sem vilja auka nýsköpunarhæfni sína, hraða mikilvægum breytingaferlum og öðlast aukna yfirsýn og getu til að þróa vörur og þjónustu. Íslenski ferðaklasinn leiðir verkefnið í samstarfi við RATA auk ráðgjafa frá landshlutasamtökum sveitarfélaga á Vesturlandi, Reykjanesi, Suðurlandi, Austurlandi, Norðurlandi eystra, Norðurlandi vestra og Vestfjörðum, sem halda utan um þátttakendahópinn í sínu heimahéraði og vinna með þátttakendum á milli vinnufunda í verkefninu.

Stjórnendur fyrirtækja í virðiskeðju ferðaþjónustunnar eru að takast á við mjög krefjandi og erfiðar aðstæður vegna aðstæðna í heiminum. Því er mikilvægt að stjórnendur reyni að hlú að sínum rekstri eins og tök eru á og tækifæri til. Mikilvægt er að reyna að nýta þau úrræði sem eru í boði frá stjórnvöldum, auk þess að að nýta tímann til að efla nýsköpun, vöruþróun og stafræna ferla fyrirtækisins, til að fyrirtækið verði betur tilbúið til að takast á við breyttan rekstrargrundvöll og rekstraraðstæður.

Verkefnið Ratsjáin mun snerta á helstu áskorunum sem fyrirtækjaeigendur og stjórnendur standa frammi fyrir í dag en endanleg dagskrá mun vera unnin í samstarfi við þátttakendur. Þeir sem veljast í verkefnið geta með kosningu haft áhrif á þá efnisþætti sem teknir verða fyrir. Meðal efnisþátta sem verða í boði eru: nýsköpun og vöruþróun, markaðsmál og markhópar, sjálfbærni og ábyrg ferðaþjónusta, stafræn þróun og tæknibylting fyrirtækja, breyttir tímar og tækifærin – kaupákvörðunarhringurinn, draumur stofnenda – tilgangur og markmiðasetning, heimasíður – hvernig skarar síðan mín fram úr?, jákvæð sálfræði, breytingastjórnun, endurhugsaðu viðskiptamódelið, skapandi hugsun sem verkfæri til framfara, samkeppnishæfni og sérstöðugreining, svo dæmi séu tekin.

Samstarfsfyrirtæki Markaðsstofu Vesturlands geta sótt um þátttöku, en tólf fyrirtækjum frá hverjum landshluta stendur til boða að taka þátt í verkefninu. Verkefnið verður þannig uppbyggt að hver þátttakandi vinnur með sitt fyrirtæki, en tekur janframt þátt í vinnufundum á netinu þar sem haldnir eru fyrirlestrar og veitt ráðgjöf, auk þess sem þáttakendur miðla þekkingu og reynslu. Aðra hverja viku eru vinnufundirnir samtengdir með þátttakendum allra landsvæða, en hina vikuna eru heimafundir með þátttakendum viðkomandi landshluta. Þar verður farið nánar yfir efnistök frá sameiginlegum fundi og unnið með sérstöðu hvers svæðis á þeirra forsendum. Auk þess er lögð áhersla á tengslamyndum og samstarf í verkefninu.

Ratsjáin mun hefjast með formlegum hætti í janúar 2021 og standa yfir í 16 vikur eða til 16.apríl.

Kynningarfundur um verkefnið verður í streymi á fb fimmtudaginn 26.nóv. kl. 11-12.

Einnig eru meiri upplýsingar inn á fb Ratsjáin

Og á vefsíðu Íslenska ferðaklasanns

 

Umsóknarfrestur er til 1. desember 2020 og er umsóknareyðublað aðgengilegt á heimasíðu Íslenska ferðaklasans.
RATSJÁ UMSÓKN

 

Nánari upplýsingar veita:

Ásta Kristín Sigurjónsdóttir, framkvæmdarstjóri Íslenska ferðaklasans, asta.kristin@icelandtourism.is

Svava Björk Ólafsdóttir, stofnandi RATA, svava@rata.is

Margrét Björk, forstöðumaður Markaðsstofu Vesturlands, maggy@west.is