Ráðstefna og málstofa um aukna nýtingu félagsheimila á Vesturlandi

SSVFréttir

Á Vesturlandi eru samtals 33 félagsheimili og menningarhús og eru þau jafn fjölbreytileg eins og þau eru mörg. Þau eru flest í eigu sveitarfélaganna eða félagasamtaka og er rekstrarform þeirra mismunandi eftir aðstæðum. Það er farið að vera algengt vandamál þessara mannvirkja að nýting þeirra hefur dregist saman með breyttum tíðaranda og sum staðar er nýtingin lítil sem engin. Þetta er ekki einskorðað við Vesturland, heldur spyrja aðstandendur félagsheimila og menningarhúsa víða um land sömu spurningar.

Í Sóknaráætlun Vesturlands árið 2020-2024 kemur fram að vilji sé til að auka nýtingu félagsheimila og menningarhúsa í þágu fjölbreyttrar menningar og í ár er það eitt af áhersluverkefnum SSV. Í tilefni af því er blásið til vefráðstefnu um málefnið sem verður haldin þann 17. september klukkan 10:00 og fer fram á samfélagsmiðlum samtakanna. Þar verða flutt erindi um tvö félagsheimili á Vesturlandi sem hafa gengið í gegnum endurnýjun lífdaga, en það eru Breiðablik á Snæfellsnesi sem er nú gestastofa svæðisins og svo Brúarás í Hálsasveit sem hefur blómstrað sem móttaka fyrir Saga Geopark og þjónusta fyrir ferðamenn. Að auki verður erindi um Menningarhúsið Hof á Akureyri sem hefur sýnt framá að menningarstarf er vel mögulegt á landsbyggðinni.

Í kjölfar viðburðarins verður málstofa í beinni útsendingu með Eggerti Kjartanssyni oddvita Eyja- og Miklaholtshrepps, Mörthu Eiríksdóttur frá Brúarási og Þórgný Dýrfjörð forstöðumanni Akureyrarstofu. Áhorfendum gefst kostur á að senda inn spurningar í gegnum Facebook.

DAGSKRÁ

VIÐBURÐUR Á FACEBOOK