Orlofshús í þéttbýli

VífillFréttir

Í sumar kom út grein frá Rannsóknasetri í byggða- og sveitarstjórnarmálum (sem SSV á aðild að) í bókinni Rannsóknir í viðskiptafræði V. Hún bar titilinn: Orlofshús í þéttbýli. Höfundar voru Vífill Karlsson, Bjarki Þór Grönfeldt og Stefán Kalmansson. Þar er greint frá rannsókn á því hversu ánægðir íbúar sem búa allt árið um kring á stöðum víða um land (staðbúar) yrðu með frekari fjölgun orlofsíbúða (e. second homes) í sínu þéttbýli og hvort helstu atvinnugreinar staðanna hafi þar áhrif. Einnig var skoðað hvort munur sé á afstöðu eftir því hvort íbúar séu atvinnurekendur eða launþegar ellegar í sterkri eða veikri efnahagslegri og félagslegri stöðu. Meðal niðurstaðna var að neikvæðni í garð fjölgunar orlofsíbúða var meiri á stöðum þar sem þær voru hlutfallslega fleiri eins og t.d. á Siglufirði. Hins vegar var hún jákvæðari þar sem ferðaþjónusta og stóriðja eru meginatvinnugreinar en þar sem fiskeldi og sjávarútvegur voru sterkari. Þá voru launþegar neikvæðari en atvinnurekendur, fólk í veikri fjárhagsstöðu neikvæðara en fólk í sterkri fjárhagsstöðu og íbúar samdráttarstaða neikvæðari en vaxtarstaða. Samdráttarstaðir eru byggðakjarnar sem búið hafa við langvarandi samdrátt en vaxtastaðir langvarandi vöxt. Einnig voru þeir jákvæðari sem hugðust flytja en þeir sem ætluðu að vera um kyrrt. Að lokum skal greint frá því 59% allra þátttakenda vildu ekki að fólk keypti sér orlofshús í heimabyggð þátttakenda. Helsta takmörkun rannsóknarinnar er að hún nær ekki til þeirra svæða sem notið hafa mestrar langvarandi velgengni. Rannsóknin byggist á gögnum sem safnað var í viðhorfskönnun árið 2019 í byggðum utan höfuðborgarsvæðisins, Akureyri og áhrifasvæðis þeirra og um 6.000 einstaklingar svöruðu. Bókin er til sölu í bókabúðum. Greinina má nálgast neðst á þessari síðu (SMELLIÐ)