Opnað fyrir umsóknir fyrir Eyrarrósina 2021

SSVFréttir

Eyrarrósin hefur verið veitt sem viðurkenning framúrskarandi menningarverkefnum á landsbyggðinni allt frá árinu 2005. Nokkur verkefni af Vesturlandi hafa komist á Eyrarrósarlistann og þar má nefna Landnámssetur Íslands í Borgarnesi, Frystiklefann á Rifi, Northern Wave Film Festival, Plan-B Art Festival, Júlíana – hátíð sögu og bóka og Reykholtshátíðin. Landnámssetrið og Frystiklefinn hafa svo hlotið viðurkenninguna eftirsóttu.

Eyrrarósin er með breyttu sniði í ár og hefur verðlaunaféð hækkað í 2,5 milljónir króna. Þá er tekið upp hvatningarverðlaun Eyrarrósarinnar í stað Eyrarrósarlistans, sem eru 750 þúsund krónur til verkefna sem eru yngri en þriggja ára. Þá eru verðlaunin veitt á tveggja ára fresti en ekki árlega eins og áður hefur verið.

Umsóknarfrestur er til og með 26. apríl næstkomandi og er hægt að fá frekari upplýsingar á listahatid.is/eyrarrosin. Eyrarrósin er samstarfsverkefni Byggðastofnunnar, Listahátíðar í Reykjavík og Icelandair (áður Flugfélag Íslands). Frú Eliza Reid er verndari Eyrarrósarinnar og afhendir verðlaunin, en þar sem heimildamyndahátíðin Skjaldborg hlaut verðlaunin árið 2020 fer verðlaunaafhendingin fram á Patreksfirði í maí næstkomandi.