Í dag kom út skýrslan „Öll él birtir upp um síðir“. Tilgangur skýrslunnar var að reyna að greina hvaða búsetuskilyrði væru líklegust til að ýta undir flutning fólks úr sveitum. Það var gert með því að bera saman ánægju íbúa í sveitum með ýmis búsetuskilyrði við ánægju íbúa á þéttbýlisstöðum. Þegar svörunum var skipt upp á milli þessara aðila, kom í ljós að búseta fyrri hópsins er aðallega næm fyrir vinnumarkaðslegum þáttum og því sem tengist þjónustu við fjölskyldufólk.
- Næstum öll búsetuskilyrði voru metin verri í sveitum en þéttbýli utan höfuðborgarsvæðisins. Þeir þættir sem voru taldir bæði verri og mikilvægari í sveitum voru vegakerfið, farsímasamband og nettengingar.
- Þá var svörum þeirra sem bjuggu í sveitum skipt upp í tvennt, þeirra sem bjuggu í nær höfuðborgarsvæðinu og þeirra sem bjuggu fjær. Þegar horft var til mesta munar á milli þessara hópa voru það samgöngu- og fjarskiptakerfi sem voru metin bæði mikilvægari og verri í sveitum fjær höfuðborgarsvæðinu en þjónusta við eldri borgara, kyrrð og ró, aðgangur að fjölbreyttri náttúru og gott mannlíf voru metin verri hjá þeim sem bjuggu nær höfuðborgarsvæðinu.
- Þættir sem snerta vinnumarkað (einkum möguleikar til eigin atvinnurekstrar og atvinnuöryggi) og þjónustu við barnafólk eru lang líklegastir til að hrekja fólk úr sveitum. Gagnvart fólki sem starfar í landbúnaði er búsetan lang viðkvæmust fyrir atvinnuöryggi en búseta þeirra sem starfa í öðrum greinum er viðkvæmust gagnvart mörgum þáttum sem búseta í þéttbýli er viðkvæm fyrir eins og t.d. fleiri vinnumarkaðslegum þáttum (möguleika til eigin atvinnureksturs og atvinnuúrvals) og þjónustu við barnafólk. Þá skipta nettengingar líka máli gagnvart seinni hópnum.
- Athygli vakti að aðeins 30% þeirra sem bjuggu í sveitum sagðist vinna við landbúnað. Þegar svörunum var skipt upp á milli þeirra sem það gerðu og hinna, kom í ljós að búseta fyrri hópsins er aðallega næm fyrir vinnumarkaðslegum þáttum og því sem tengist þjónustu við fjölskyldufólk á meðan búseta þeirra sem ekki vinna við landbúnað var næmari fyrir nokkuð svipuðum þáttum og þeir sem búa í þéttbýli. Það eru vinnumarkaðslegir þættir, þjónusta við barnafólk og eldri borgara sem og nettengingar o.þ.h.
Skýrsluna má finna í heild sinni hér (smellið).