Nýsköpunar- og frumkvöðlasetur opnar í Dalabyggð

SSVFréttir

Páll S. Brynjarsson framkvæmdarstjóri SSV og Eyjólfur Ingvi Bjarnason oddviti Dalabyggðar

Miðvikudaginn 30. mars sl. var opnun Nýsköpunar- og frumkvöðlaseturs í Dalabyggð. Setrið er samstarfsverkefni Dalabyggðar við nokkur leiðandi fyrirtæki, stofnanir og samtök. Þar má nefna Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi (SSV),  Verkfræðistofuna EFLU, Kaupfélag Borgfirðinga, Bændasamtök Íslands, Arion banka, Landbúnaðarháskóla Íslands, Háskólann á Bifröst, Símenntun og KPMG.
Í setrinu er að finna samvinnurými þar sem hægt er að leigja borð, allt frá einum degi upp í mánuði. Setrið rúmar bæði smærri og stærri hugmyndir. Tilvalin aðstaða fyrir nýsköpunarhugmyndir, frumkvöðlastarfsemi, störf án staðsetningar og námsmenn. Einnig verður hægt að panta tíma varðandi ráðgjöf, áætlanagerð og fleira hjá samstarfsaðilum setursins.

Við opnun setursins sagði Eyjólfur Ingvi Bjarnason, oddviti Dalabyggðar m.a.:
Dalabyggð er ekki að stofna þetta í ágóðasjónarmiði heldur til að skapa þetta samfélag hér í Dölum og drífa allar fjölbreyttu hugmyndirnar sem leynast við eldhúsborðin hér og þar í Dalabyggð hingað inn og koma þeim yfir á framkvæmdastig. Oft vantar fólki bara aðstoð við að komast af stað.

Þá sagði Páll Brynjarsson, framkvæmdarstjóri SSV m.a. :
„Dalabyggð er að stíga stórt skref í dag með opnun nýsköpunar- og frumkvöðlaseturs þar sem hægt verður að sinna störfum og vinna verkefni í samvist við aðra og sækja sér ýmiskonar ráðgjöf og stuðning.  Oft er sagt að bestu hugmyndirnar verða til við kaffivélina.

Nánari upplýsingar um setrið og bókanir þar má finna hér:
Nýsköpunar- og frumkvöðlasetur Dalabyggðar