Nýr vefur Listar fyrir alla opnaður

SSVFréttir

Nú hefur List fyrir alla opnað glæsilegan vef sem er gerður til að auka aðgengi barna og ungmenna að menningartengdri starfsemi um allt land. Á kortasjá má á einfaldan hátt sjá yfirlit yfir söfn, sýningar og setur sem bjóða börn og unglinga sérstaklega velkomin. Á Vesturlandi er fjöldi menningarhúsa sem standa til boða auk vinnustofa listamanna sem gleðja huga og sál. Á síðunni er margt fleira áhugavert til að kynna sér, t.d. viðburði, barnamenningarhátíðir og fleira skemmtileg. Starfandi listafólki gefst jafnframt kostur á að koma sínu starfi og verkefnum á framfæri.

List fyrir alla er ein af aðgerð byggðaáætlunar Stjórnarráðsins sem miðast við að öll börn og unglingar hafi jafnan aðgang að menningu og listum óháð búsetu og efnahag. Verkefnið er í samstarfi við menningarstofnanir af ýmsu tagi, og þar á meðal við menningarfulltrúa SSV sem er tengiliður Vesturlands við verkefnið. List fyrir alla er á forræði Mennta- og menningarmálaráðuneytisins.

Vefsíðan var sem áður segir opnuð formlega við hátíðlega athöfn í listasafni Einars Jónssonar á Skólavörðuholti síðastliðinn föstudag. Í tilefni þess hittust svokallaðir menningartenglar grunnskólanna, en eitt af verkefnum Listar fyrir alla er að efla samstarf listgreinakennara á öllu landinu, með þeim markmiðum að efla listsköpun barna og ungmenna. Á meðfylgjandi ljósmynd má sjá Elfu Lilju Gísladóttur opna vefinn í listasafninu.

Vefsíða: List fyrir alla

Sigursteinn Sigurðsson
Menningarfulltrúi SSV