„Nýjar höfuðstöðvar Náttúrufræðistofnunar verða á Akranesi samkvæmt ákvörðun Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra. Ráðherra undirritaði í gær viljayfirlýsingu við Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi (SSV) um að styðja við uppbyggingu starfsstöðva Náttúrufræðistofnunar og fleiri opinberra stofnana ráðuneytisins á Vesturlandi.
Viljayfirlýsingunni sem undirrituð var í gær er ætlað að færa ný og laus störf stofnunarinnar á Vesturland, en í ályktun sem samþykkt var á Haustþingi Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi í haust var skorað á ríkisstjórnina að fjölga opinberum störfum á Vesturlandi.Einnig felst í yfirlýsingunni að hluti starfsstöðva sem heyrir undir ráðuneytið og stofnanir þess verði í húsnæði Landsbúnaðarháskólans á Hvanneyri. Verður það útfært í samvinnu við stjórnendur viðkomandi stofnana. Verður verkefnið unnið í samvinnu við önnur ráðuneyti, Framkvæmdasýslu – Ríkiseignir, Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi og Borgarbyggð.
Þá verður Náttúrufræðistofnun falið að vinna rannsóknaráætlun um vernd og nýtingu auðlinda í Breiðafirði í samstarfi við Náttúrustofur Vesturlands og Vestfjarða, Breiðafjarðarnefnd, Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi, Fjórðungssamband Vestfjarða og fleiri aðila.
Einnig verður hafin undirbúningur að tilraunaverkefni um aukna landvörslu við Breiðafjörð, en fyrirséð er að stýra þarf aukinni ásókn ferðamanna til að viðhalda verndunargildi Breiðafjarðar, eyja og nágrennis. Þá verður á næstu þremur árum stutt við áform um rannsóknir og samstarf vegna tilnefningar á Snæfellsnesi sem UNESCO vistvangs (Man and Biosphere), með áherslu á íbúa, samfélög og náttúru á Snæfellsnesi.“
Hópur sem var komin saman á Hvanneyri af þessu tilefni. Mynd: Skessuhorn Málin rædd. Mynd: SSV Guðlaugur Þór ráðherra slóg á létta strengi með Páli S. Brynjarssyni framkvæmdastjóra SSV. Mynd: SSV