Ný störf innan íþróttahreyfingarinnar á Vesturlandi

SSVFréttir

Sextán ný stöðugildi innan íþróttahreyfingarinnar má nú finna um land allt á vegum UMFÍ og ÍSÍ en þar starfa nú svæðisfulltrúar á þeirra vegum í þeim tilgangi að efla íþróttahéruð og íþróttahreyfinguna. Tilkomu þessara stöðugilda, sem tilheyra svokölluðum svæðisstöðvum, má rekja til þess að mennta- og barnamálaráðuneytið setti fram stefnumótun í íþróttamálum til ársins 2030 þar sem markmið voru meðal annars að efla starfsemi og skipulag íþróttahreyfingarinnar.​ Tillaga um að koma á fót svæðisstöðvum fyrir íþróttahreyfinguna var samþykkt á þingum ÍSÍ og UMFÍ árið 2023 og skrifað var undir samning við ráðuneytið í lok árs 2023 um að koma þessum svæðisstöðvum á laggirnar en samhliða stendur til að stofna hvatasjóð fyrir íþróttahéruðin. Í honum munu verða 70 milljónir næstu tvö árin, alls 140 milljónir króna, en í sjóðinn munu íþróttahéruð geta sótt um fyrir sig og sín félög vegna ákveðinna áhersluverkefna.

Helstu markmið með svæðisstöðvunum eru:

  • Að styðja við íþróttahéruð landsins við innleiðingu á stefnu íþróttahreyfingarinnar og ríkisins í íþróttamálum
  • Að efla íþróttahéruðin í sínu nærumhverfi með því að þjónusta þau með samræmdum hætti
  • Að auka þátttöku barna og ungmenna í skipulögðu íþróttastarfi
    • Sérstök áhersla á börn með fatlanir, frá tekjulægri heimilum og á þau sem hafa fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn
  • Að bæta starfsumhverfi og þekkingu, auka samræmingu og samstarf og stuðla þannig að aukinni farsæld barna og annarra sem nýta þjónustu hreyfingarinnar
  • Að létta álag á sjálfboðaliðum með aukinni aðstoð ,,yfir íþróttahéruðunum“
    • Daglegt starf enn á ábyrgð félaganna og íþróttahéraðanna en stuðningur frá svæðisskrifstofunum

Á Vesturlandi eru það þau Álfheiður Sverrisdóttir og Heiðar Mar Björnsson sem eru svæðisfulltrúar UMFÍ og ÍSÍ, Álfheiður með starfstöð á Hvanneyri og Heiðar Mar með starfsstöð á Akranesi. Á starfssvæði svæðisfulltrúa Vesturlands eru fjögur íþróttahéruð; Héraðssamband Snæfellsness og Hnappadalssýslu, Íþróttabandalag Akraness, Ungmennasamband Dalamanna og Norður-Breiðfirðinga og Ungmennasamband Borgarfjarðar. Fyrstu verkefni svæðisfulltrúanna var viðamikil gagnasöfnun sem er nú á lokametrunum og munu svæðisfulltrúar í framhaldinu fara að vinna aðgerðaráætlanir fyrir hvert svæði fyrir sig í samráði við sín íþróttahéruð.

Netföng svæðisfulltrúa Vesturlands eru alfheidur@siu.is og heidar@siu.is og eru öll áhugasöm um íþróttastarf á Vesturlandi velkomið að hafa samband við þau varðandi þessi mál til að fá aðstoð eða leiðbeiningar.