NORA auglýsir verkefnastyrki – síðari úthlutun 2021

SSVFréttir

 

Markmið með starfi NORA (Norræna Atlantssamstarfsins) er að styrkja samstarf á Norður-Atlantshafssvæðinu. Ein leið að því markmiði er að veita verkefnastyrki tvisvar á ári til samstarfsverkefna á milli Íslands og a.m.k. eins annars NORA-lands, þ.e. Grænlands, Færeyja, strandhéraða Noregs. Nú er komið að síðari úthlutun ársins 2021.

Umsóknarfrestur er til og með mánudagsins 4. október 2021.

Hámarksstyrkur er 500.000 dkr. Lengst er unnt að veita styrki til 3ja ára og aðeins sem hluta af heildarfjármögnun verkefnis, gegn mótframlagi viðkomandi aðila. Umsóknir skulu fela í samstarf á milli a.m.k. tveggja NORA-landa. Í umsóknunum skal taka mið af samstarfsáætlun NORA 2021-2024.

Þau svið sem helst eru styrkt eru eftirfarandi:

Lífhagkerfi: Nýsköpunarverkefni skulu stuðla að verðmætaaukningu með þróun vannýtts hráefnis, nýrrar verðmætasköpunar og sjálfbærrar matvælaframleiðslu með tilliti til stuttra flutningsleiða.
Sjálfbær ferðaþjónusta: Ferðaþjónustan á að leggja sitt af mörkum til að auka fjölbreytni og starfsemi í viðkvæmum hagkerfum á svæðinu um leið og sjálfbærni innan greinarinnar eykst.

Hringrásarhagkerfi: nýting náttúruauðlinda og framleiðslu með áherslu á endingu og endurvinnslu. Í forgangi eru verkefni í samstarfi sveitarfélaga í þáttökulöndunum.
Flutningar: Samstarf um grænar lausnir í samgöngum sem um leið tengja byggðarlögin og löndin betur saman. Í forgangi eru verkefni um grænar orkulausnir í samgöngum/flutningum á sjó.

Orkumál: þróun endurnýjanlegra og rafrænna lausna í dreifbýli og í forgangi eru verkefni sem miða að orkulausnum staða sem eru utan meginflutningskerfis raforku.

Samfélag: efla samfélag byggðarlaga til að draga úr brottflutningi. Sérstaklega með í huga að virkja ungt fólk í landsbyggðunum.

Nánari upplýsingar má finna á heimasíðu NORA, www.nora.fo og þar má m.a. finna nánari leiðbeiningar um útfyllingu umsóknar undir flipanum „PROJEKTSTØTTE“.

Rafrænt umsóknarform hefur nú verið opnað gegnum heimasíðu NORA, sjá:

https://umsokn.com/dk/app/nora_2021_2

Upplýsingar og ráðgjöf má fá hjá tengilið NORA á Íslandi: Sigríði K. Þorgrímsdóttur, sigga@byggdastofnun.is

 Við mat umsókna eru eftirfarandi þættir sérstaklega til skoðunar:
• Tenging verkefnisins við samstarfsáætlun NORA og þátttöku ungs fólks
• Möguleika verkefnisins til árangurs
• Hvort að verkefnið sé endurtekið eða mjög líkt öðru verkefni
• Samsetning samstarfsaðila
• Raunhæfi viðskiptaáætlunar

Umsóknir verða að uppfylla eftirfarandi kröfur:
• Samstarfsaðilar skulu vera frá a.m.k. tveim NORA löndum. Samstarfsaðilar frá öðrum nágrannalöndum eru einnig leyfilegir. Þeir njóta þó ekki styrks frá NORA og teljast ekki með til þess að uppfylla skilyrði um a.m.k tvö NORA-lönd. Að auki skal eignarhald og aðkoma samstarfsaðila að verkefni vera jafnt.
• Hámarksstyrkur er 50% af heildarfjármögnun verkefnisins, en þó aldrei hærri en 500.000 dkr. á ári og 1.500.000 dkr. á þriggja ára tímabili.