Móttaka skemmtiferðaskipa og farþega á Snæfellsnesi

SSVFréttir

Áfanga- og markaðssvið SSV er þessa dagana og næstu vikur að vinna að verkefni sem felur í sér að vinna með heimafólki að gerð staðbundinna leiðbeininga fyrir skemmtiferðaskip og skipafarþega á Snæfellsnesi. Verkefnið er unnið í samvinnu við Sveitarfélagið Stykkishólm, Grundarfjarðarbæ, Snæfellsbæ, Þjóðgarðinn Snæfellsjökul, Svæðisgarðinn Snæfellsnes og AECO (The Association of Arctic Expedition Cruise Operators. Að auki kemur Sigurborg Kr. Hannesdóttir hjá ILDI að verkefninu með ráðgjöf og aðstoð.

Markmiðið með verkefninu er að fá hagaðila á svæðinu til að stilla saman strengi og leggja línurnar um hvernig heimafólk á Snæfellsnesi vill taka á móti farþegum skemmtiferðaskipa sem heimsækja svæðið og er tilgangurinn sá að einstaka staðir verði ekki fyrir of miklu álagi, að gestirnir njóti heimsóknarinnar og samfélagið njóti ávinnings af gestamóttökunni.

Á vormánuðum 2022 vann Á&M að sambærilegu verkefni í samvinnu við AECO, Akraneskaupstað og Faxaflóahafnir, afrakstur þeirrar vinnu má sjá hér: Staðbundnar leiðbeiningar fyrir Akranes/Community Guidelines. Verkefnið er þó ívið umfangsmeira núna vegna þess að fleiri sveitarfélög, hagaðilar og samstarfsaðilar koma að því, svæðið er stærra og mun meiri fjöldi skemmtiferðaskipa kemur þar í hafnir. Markmiðin eru þó hin sömu, þ.e. að sammælast um staðbundnar leiðbeiningar og leiðarljós í þessari tegund ferðaþjónustu sem bæði fyrirtækin, heimamenn og gestir geta fylgt sáttir.

 

Helstu áskoranir verkefnisins felast í því að gera stöðugreiningu og kynna sérstöðu svæðisins, vilja og væntingar heimafólks fyrir hagaðilum skemmtiferðaskipa og að sama skapi kynna eðli og áherslur skipaferðaþjónustu fyrir heimafólki og skilgreina þau tækifæri sem felast í móttöku skipafarþega.

Hér má sjá kynningu á verkefninu í heild sinni.

Fyrsti stóri kynningar- og vinnufundur verkefnisins var haldinn í samkomuhúsinu í Grundarfirði síðastliðinn þriðjudag. Hagaðilar allra þjónustusvæða á Snæfellsnesi voru boðaðir á fund og mættu 45 þátttakendur auk góðra gesta frá AECO sem héldu kynningar og áttu samtal við fundargesti. Gyða Guðmundsdóttir, sérfræðingur í samfélagsþátttöku hjá AECO og Karin Strand, stjórnarformaður AECO og þróunarstjóri hjá Hurtigruten Expeditions mæltu fyrir hönd AECO. Margrét Björk, fagstjóri áfangastaða- og markaðssviðs SSV er verkefnisstjóri verkefnisins og er með allt utanumhald og Sigurborg Kr. Hannesdóttir frá ILDI aðstoðaði við undirbúning og framkvæmd á fundum.

Verkefnisstjóri fór yfir kynningu á verkefninu, þá voru kynningar frá fulltrúum AECO um eðli skipaferðaþjónustu og áherslur skipafélaga sem starfa undir þeirra merkjum. Síðan var farið yfir mikilvægi góðrar heimavinnu, samtals og samvinnu í ferðaþjónustu og verkefni sem lá fyrir að vinna á fundinum.

Þegar leið á seinni hluta fundarins var skipt um gír og þátttakendum skipt niður í hópa eftir svæðum og hver hópur fyrir sig vann SVÓT-greiningu fyrir sitt svæði sem gekk mjög vel. En þessi SVÓT-greining er ein af undirstöðugreiningum sem nýttar eru í þessu verkefni til að meta stöðu svæðisins, tækifæri og möguleika til að efla og bæta stýringu og móttöku ferðamanna á öllum þjónustusvæðum á Snæfellsnesi.

Stefnt er að því að kynna afurð verkefnisins 30. maí á opnum fundi.

Hægt er að fylgjast með framvindu þessa verkefnis og annarra verkefna Áfangastaða- og Markaðssviðs SSV inn á vesturland.is/á döfinni.

fréttin í heild sinni inná west.is