Ljóðasamkeppni Barnó og Júlíönu – hátíðar sögu og bóka

SSVBarnó, Fréttir

Júlíana – hátíð sögu og bóka í Stykkishólmi og Barnó – BEST MEST VEST leiða saman hesta sína og blása til ljóðasamkeppni á meðal barna á mið- og unglingastigi grunnskólanna á Vesturlandi. Með þessu er gerð tilraun til að kanna hvort meðal barna í landshlutanum leynist skáld með bjarta framtíð í bókmenntalistum.

Kallað er eftir innsendum tillögum í tveimur flokkum, þ.e. miðstig – 10-13 ára og unglingastig – 14-16 ára. Glæsilegir vinningar eru á boði, en í fyrstu verðlaun fyrir sigurljóð á miðstigi eru miðar á sýningar Borgarleikhússins að eigin vali, og gjafabréf á Tix.is fyrir sigurljóð á unglingastigi. Bókaverðlaun eru veitt örðu sæti.

Keppnisleiðbeiningar

Skilafrestur er 10. nóvember nk og skal senda tillögur á netfangið menning@ssv.is. Með ljóðinu skal fylgja dulnefni höfundar auk nafns, aldurs og skóla höfundar. Trúnaðarmaður keppninar er Sigursteinn Sigurðsson menningarfulltrúi SSV sem mun koma tillögum til dómnefndar sem mun velja sigurljóðin.

Úrslit verða kunngjörð í nóvember, en formleg verðlaunaafhending fer frá á Júlíönu – hátíðar sögu og bóka sem fram fer í Stykkishólmi í mars 2026.

Í dómnefnd sitja: Gunnar Theódór Eggertsson rithöfundur, Dagbjört Höskuldsdóttir ljóðaunnandi og fyrrum bóksali og Eva Björg Ægisdóttir rithöfundur. Verkefnastjóri Júlíönu – Hátíðar sögu og bóka er Gréta Sigurðardóttir.