Hún Svala kom eins og stormsveipur inn í starfsmannahópinn hjá Samtökum sveitarfélaga á Vesturlandi (SSV). Það var líf og fjör, gleði og gaman og öll verkefni leyst af dugnaði, krafti og miklum metnaði. Það var ekkert verkefni of stórt eða of flókið, hún fann út úr hlutunum og reddaði málum.
Alltaf tilbúin til að taka þátt í að efla starfsandann og oftar en ekki fremst í flokki þegar þurfti að skipuleggja starfsmannaferðir og ýmsa viðburði. Jákvæðni hennar og gleði smitaði út frá sér og við í starfsmannahópnum áttum margar góðar stundir og nutum þess að starfa saman.
Svala læddist ekki með veggjum og fátt gerði hún í kyrrþey. Skrifstofuhurðinni hrundið upp, tölvutöskunni skellt á borðið og um skrifstofuna glumdi „Hæ elskurnar“. Stokkið að kaffivélinni og skellt í fyrsta cappuccino bollann af mörgum og suma daga náðu þeir nærri að fylla tuginn. Sest við skrifborðið og dæst duglega og svo var allt sett í gang. Náði að gera margt í einu, fyrir utan að gera allt fyrir SSV með bravör, hélt hún utan um að krakkarnir væru með allt á hreinu, reddaði Eyþóri, pantaði utanlandsferðir fyrir stór fjölskylduna, var með í að undirbúa hestamannamót, sá um fjármálin fyrir UMSB og svo var hún orðin of sein á fund í stjórn Fellsenda vestur í Dölum. Stökk af stað og kallaði, ég hringi á leiðinni og við förum yfir þetta. Allt gert af sama kraftinum og eftir vinnu hjá SSV var sest við bókhaldsvinnu fyrir ýmsa aðila og séð um að allt væri klárt í bústaðnum í Mýrarkoti þegar næsti gestur kæmi.
Þau sjö ár sem Svala vann með okkur áttum við nokkra hlutdeild í hennar lífi. Fengum að fylgjast með því sem á daga hennar og fjölskyldunar dreif. Krakkarnir uxu úr grasi og urðu að efnilegum ungmennum, systkinahópurinn samheldinn og stundum minnst á Sigga, Sveinbjörn og Dittu systur. Hestamennskan var sameiginlega áhugamálið hennar og Eyþórs og margt dreif á dagana í hestaferðum og stundum voru rifjaðar upp sögur úr fótboltanum hjá Val. Alls staðar var Svala í miðri hringiðunni og þátttakandi af lífi og sál.
Við hjá Samtökum sveitarfélaga á Vesturlandi kveðjum einstakan vinnufélaga sem auðgaði vinnustaðinn og verður sárt saknað. Missir fjölskyldunnar er hins vegar mestur og við sendum henni og öllum aðstandendum Svölu okkar dýpstu samúðarkveðjur.
Starfsfólk SSV