Þann 6. júní var Klasi safna, sýninga og setra formlega stofnaður að Snorrastofu í Reykholti. Stofnunin er afrakstur vinnu sem hefur verið yfirstandandi síðan árið 2019, en verkefnið hefur verið unnið af ráðgjafafyrirtækinu Creatrix. Verkefnastjóri Creatrix er Signý Óskarsdóttir sem vann með Sigursteini Sigurðssyni, menningarfulltrúa SSV að stofnun klasans. Mótun klasans var gerð með samtölum við forstöðumenn og starfsfólk safna á Vesturlandi, en jafnframt var boðið að borðinu söfn, sýningar og setur í einkarekstri. Afraksturinn er téður klasi sem hefur nú verið stofnaður. Verkefnið um stofnun klasans var áhersluverkefni Sóknaráætlunnar Vesturlands, sem að auki hefur lagt 1,6 milljónir til verkefna klasans árið 2023.
Í Byggðaáætlun ríkisstjórnarinnar er aðgerð þar sem kveðið er á um aukið samstarf safna á landinu og er sem fyrr segir stofnun klasans liður í því. Hlutverk klasans mun felast í samstarfi á sviði markaðs- og kynningarmála, endurmenntun starfsfólks auk ýmissa verkefna er lúta að faglegu starfi safna á Vesturlandi. Til dæmis er umræða um varðveislumál fyrirferðarmikil á vettvangi safnafólks. Menningarfulltrúi SSV verður verkefnastjóri klasans og mun starfa með stjórn hans að verkefnum í þágu safna, sýninga og setra í landshlutanum.
Í tilefni stofnfundarins var mikið um dýrðir í Snorrastofu, en boðið var uppá tónlistaratriði frá systrunum Hönnu Ágústu og Sigríði Ástu Olgeirsdætrum. Þá voru haldin tvenn fræðsluerindi en Guðlaug Dröfn Gunnarsdóttir safnfræðingur fjallaði um rannsókn og miðlun Brúðusafns Bíbíar í Berlín og Berglind Þorsteinsdóttir forstöðumaður Byggðasafns Skagfirðinga fjallaði um varðveislumál safnsins, og það mikla Grettistak sem var lyft við uppbyggingu varðveislurýma safnsins. Baldur Þórir Guðmundsson sérfræðingur menningarmála hjá menningar-, viðskipta- og ferðamálaráðuneytinu ávarpaði fundinn í forföllum Lilju Daggar Alfreðsdóttur menningar,- viðskipta- og ferðamálaráðherra sem færði samkomunni góðar kveðjur.
Í stjórn klasans voru kjörinn Bjarnheiður Jóhannsdóttir frá Eiríksstöðum og Vínlandssetri, Hjördís Pálsdóttir frá Byggðasafn Snæfellinga og Hnappdæla og Vatnasafninu í Stykkishólmi og Sigrún Þormar frá Snorrastofu.
Í varastjórn voru kjörin Jón Allansson frá Byggðasafninu í Görðum, Ragnhildur Helga Jónsdóttir frá Landbúnaðarsafni Íslands og Þórunn Kjartansdóttir frá Safnahús Borgarfjarðar.
Stofnaðilar að klasa safna, sýninga og setra á Vesturlandi eru:
Byggðasafn Dalamanna , Byggðasafn Snæfellinga og Hnappdæla , Byggðasafnið í Görðum , Eiríksstaðir í Haukadal, Hernámssetrið í Hvalfirði, Landbúnaðarsafn Íslands, Landnámssetur Íslands, Leikfangasafn Soffíu , Safnahús Borgarfjarðar, Snorrastofa í Reykholti, Vínlandssetrið, Vatnasafnið í Stykkishólmi