Kári Viðarsson, leikari og menningarfrömuður í Rifi, hefur hlotið Landstólpann 2025 – viðurkenningu Byggðastofnunnar fyrir einstakt framlag til samfélags og menningarlífs á Snæfellsnesi. Þetta er í fyrsta skipti sem viðurkenningin fer til aðila á Vesturlandi.
Landstólpinn er árleg viðurkenning sem veitt er einstaklingum, hópum eða verkefnum sem hafa haft jákvæð áhrif á byggðaþróun, styrkt samfélag sitt og sýnt frumleika og hugrekki í verki. Með viðurkenningunni fylgir listaverk og ein milljón króna í verðlaunafé.
Kári hefur í rúman ártug staðið á bak við Frystiklefann í Rifi, skapandi og lifandi menningarsetur í gömlu frystihúsi. Þar hefur hann framleitt leiksýningar, skipulagt tónleika, tekið á móti listafólki og skapað vettvang fyrir frjóa hugsun og samfélagsleg samtöl. Verkefnið „Hellissandur – Street Art Capital of Iceland“ er líka á hans vegum og hefur gjörbreytt ásýnd bæjarins. Kári hefur sett mörg verk á fjalirnar í Frystkilefanum, eins og til dæmis Hetjan, Prinsinn og Mar. Þá leiddi Kári heimildamyndina Heimaleikinn sem er nú margverðlaunuð um allan heim.
Frystiklefinn er í dag orðinn órjúfanlegur hluti af menningarlífi Snæfellsness og Vesturlands í heild – og nú líka verðlaunaður með Landstólpanum.
Starfsfólk SSV óskar Kára og Frystiklefanum innilega til hamingju með Landstólpann!