Í nýjustu íbúakönnuninni voru þátttakendur spurðir út í íbúalýðræði. Í þeim tilgangi var spurt: Hversu vel finnst þér sveitarfélagið leita eftir sjónarmiðum eða skoðunum íbúanna? Á Vesturlandi var þó nokkur breidd í niðurstöðum þessarar spurningar. Í Dölunum töldu hlutfallslega fæstir þátttakenda sveitarfélagið standa sig illa í að leita eftir sjónarmiðum íbúanna eða um 17% (sjá mynd). Dalirnir voru líka lægstir á landsvísu en hæst var þetta hlutfall um 50% í Fjarðabyggð. Á Vesturlandi kom Snæfellsnes verst út með rúmlega 40%. Akranes og Hvalfjörður liggja í landsmeðaltalinu þegar horft er á þetta hlutfall en ef horft er til þeirra sem telja það sveitarfélag standa sig vel að þessu leyti þá kom það örlítið betur út en meðaltal allra þátttakendanna. Borgarfjarðarsvæði kom ekki nógu vel út er varðar hlutfall þeirra sem telja sveitarfélagið standa sig illa að þessu leyti en 38% voru á þeirri skoðun og lenti það í þriðja neðsta sæti þegar horft var til hlutfalls þeirra sem töldu það standa sig vel (17%) sem er mun lakari útkoma en þegar horft var eingöngu á hlutfall þeirra sem töldu það standa sig illa. Útkoma Snæfellsness og Borgarfjarðarsvæðis ætti því mögulega að vera áhyggjuefni fyrir þá sem leggja mikið upp úr íbúasamráði og/eða íbúalýðræði. Góð útkoma Dalanna kann að vera í tengslum við verkefnið DalaAuð en það hefur kallað á töluvert samráð í sveitarfélaginu.