Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi (SSV) hafa ráðið í nýtt starf teymisstjóra í þróunarverkefninu „Gott að eldast“, með áherslu á samþætta félags- og heimaþjónustu fyrir eldra fólk á Vesturlandi.
Í þessu nýja og fjölbreytta starfi mun Heiður leiða þverfagleg heimaendurhæfingarteymi sem starfa í samstarfi við HVE og sveitarfélög á Vesturlandi, með það að markmiði að þróa og styðja þjónustu sem stuðlar að auknu sjálfstæði eldra fólks og bættum lífsgæðum í heimahúsi. Verkefnið er hluti af þróunarverkefninu Gott að eldast, sem hefur það hlutverk að finna nýjar lausnir til að flétta saman félags- og heilbrigðisþjónustu þannig að hún mæti betur þörfum fólks sem er að eldast.
„Við erum afar ánægð með að fá Heiði í þetta mikilvæga starf. Reynsla hennar og menntun mun skipta miklu máli við uppbyggingu og framkvæmd þjónustu sem skiptir miklu fyrir íbúa á Vesturlandi,“ segir Páll S. Brynjarsson framkvæmdastjóri SSV.
Heiður er fædd og uppalin á Akranesi þar sem hún býr í dag ásamt eiginmanni sínum Ásbirni Egilssyni og þremur sonum. Hún útskrifaðist sem iðjuþjálfi frá háskólanum á Akureyri árið 2016 og hefur unnið við fagið síðan 2017. Heiður mun hefja störf síðar í janúar við að leiða móttöku- og matsteymi með metnað og áhuga á að styrkja þjónustu við íbúa á Vesturlandi.
Starfið er í 100% starfshlutfalli með starfsstöð á Vesturlandi og er liður í því að efla og þróa þjónustu SSV í samvinnu við sveitarfélög og heilbrigðisþjónustu á svæðinu.