Haustfundur menningarfulltrúa

SSVFréttir

Tónlistarmiðstöð heimsótt, og mynd tekin með Önnu Rut Bjarnardóttur verkefnisstjóra og Maríu Rut Reynisdóttur framkvæmdastjóra

 

Í vikunni fór fram haustfundur menningarfulltrúa og verkefnastjóra menningarmála hjá landshlutasamtökunum. Alla jafna hittist hópurinn að vori og hausti, og þá í höfuðborginni annars vegar og í einum landshluta hinsvegar. Fundir sem þessir eru nauðsynlegri til að stilla saman strengi um hvernig efla megi menningarstarf á landsbyggðinni og ekki síst standa að hagsmunagæslu lista um allt land.

Að þessu sinni voru fundirnir steyptir í einn og hófst í Reykjavík áður en lagt var af stað á Vestfirðina, en Vestfjarðarstofa voru gestgjafar í ár. Fundað var með List fyrir alla, þar sem Elfa Lilja Gísladóttir verkefnastjór sagði frá því helsta sem er að gerast á þeim bæ, til að mynda verkefninu Málæði í samstarfi við Bubba Morthens sem gengur útá að efla börn og ungmenni í að tjá sig á skapandi hátt á íslensku. Rætt var við Vigdísi Jakobsdóttur sem senn lætur af störfum sem listrænn stjórnandi Listahátíðar í Reykjavík en Vigdís hefur átt afar gott samstarf við landshlutasamtökin varðandi hátíðina, til að mynda verkefnið um sæskrímslin sem var hluti barnamenningarhátíðar á Akranesi.

Því næst var menningar- og viðskiptaráðuneytið þar sem fundað var með Örnu Kristínu Einarsdóttur skrifstofustjóra, Baldur Þórir Guðmundsson sérfræðing og Jóhönnu Hreiðarsdóttur aðstoðarmann ráðherra. Þá var fundað með Jónu Hlíf Halldórsdóttur forseta Bandalags íslenskra listamanna, Tónlistarmiðstöð og RÚV, með það fyrir augum halda áfram og efla samstarf og tengslanet.

Sem fyrr segir voru Vestfirðingar gestgjafar fundar menninarfulltrúa í ár og hefð er fyrir því að hópurinn kynni sér áhugaverð verkefni á milli funda. Á Patreksfirði var Vatneyrarbúð heimsótt, en Vatneyrarbúð er nýtt samvinnurými í glæsilegu nýuppgerðu húsi á staðnum, þar sem ýmis starfsemi hefur hreiðrað um sig. Á Bíldudal kynnti hópurinn sér starfsemi Skrímslasetursins sem hefur fest sig í sessi sem áhugavert verkefni menningarferðaþjónustu. Minjasafn Egils Ólafssonar að Hnjóti var heimsótt ásamt Byggðasafni Vestfjarða á Ísafirði þar sem safnamál voru könnuð, skoðuð var Netagerðin sem er nýtt samvinnurými skapandi fólks á Ísafirði og nágrenni, menningarhúsið Edinborg heimsótt og kynnt og margt fleira áhugavert kannað og skoðað.

Að lokinni þéttri dagskrá héldu menningarfulltrúi heim á leið með hugmyndir og verkefni í farteskinu sem nýst gæti á sínum heimasvæðum. Fundir sem þessir eru því nauðsynlegir til eflingar menningarstarfs hjá landshlutasamtökunum listum til heilla. Menningarfulltrúar landshlutanna eru Guðlaugur Skúlason hjá SSNV, Hildur Halldórsdóttir hjá SSNE, Logi Gunnarsson hjá SSS, Skúli Gautason hjá Vestfjarðarstofu, Signý Ormarsdóttir hjá Austurbrú og Þórður F. Sigurðsson hjá SASS. Fulltrúi SSV var Sigursteinn Sigurðsson menningar- og velferðarfulltrúi.

Menningarfulltrúar hætta sér á útsýnispallinn á Bolafjalli Uppbygging áfangastaðarins við Dynjanda skoðuð Gagnvirkur skjár á Skrímslasetrinu í Bíldudal Kynning á Minjasafni Egils Ólafssonar að Hnjóti Heimsókn í RÚV þar sem fundað var með Fanneyju Birnu Jónsdóttur, dagskrárstjóra Rás 1, Guðna Tómassonar ritstjóra menningar á RÚV og Margréti Jónasdóttur aðstoðardagskrárstjóra RÚV. Hópurinn með Jónu Hlíf Halldórsdóttur nýjum forseta BÍL