Atvinnuráðgjafar og framkvæmdastjóri SSV sátu haustfund atvinnuþróunarfélaga á dögunum. Dagskráin hófst með ráðstefnu í Valaskjálf þar sem Dagmar Ýr Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri Austurbrúar, kynnti m.a. áhugaverða tölfræði og starfsemi á starfssvæði Austurbrúar í fyrsta erindi dagsins og þar á eftir fjallaði Arnar Sigurðsson hjá Austan mána um samstarf við Austurbrú um eflingu frumkvöðla og nýsköpunar á Austurlandi.
Að loknum hádegisverði fjallaði Brynjólfur Borgar Jónsson hjá Datalab um gervigreind og hvernig gervigreindin getur nýst atvinnuráðgjöfum í störfum sínum, t.a.m. við aðstoð við umsóknarskrif.
Þá kynnti Jákup Sørensen starfsemi NORA og hvaða möguleikar eru þar til staðar til að byggja upp tengslanet og sækja í sjóði á vegum samtakanna. Síðasta erindi dagsins var frá Byggðastofnun þar sem farið var yfir styrkjapotta Byggðastofnunar, og hvaða verkefni hafa fengið styrki úr sérstökum verkefnum Byggðaáætlunar.
Í lok dags fóru fram umræður á borðum um ýmis mál er tengjast störfum atvinnuþróunarfélaga.
Að lokinni ráðstefnu fóru fundarmenn í heimsóknir til fyrirtækja og frumkvöðla. Ekið var til Eskifjarðar þar sem hópurinn heimsótti fyrst fyrirtækið Tandrabretti sem framleiðir viðarbretti úr timbri sem er vottað úr endurnýjanlegum skógum. Þar eru einnig framleiddar viðarperlur úr afgangsviði sem henta vel sem undirburður undir hross og sem orkugjafi til húshitunar. Fulltrúar fyrirtækisins kynntu ferlið og hvernig viðarperlurnar gagnast íbúum og fyrirtækjum á köldum svæðum. Einnig var kynnt nýsköpunarverkefni sem eru kolaðar greinar trjáa sem bindingar kolefnis.
Dagurinn endaði í Randulffs sjóhúsi sem er veitingastaður í gömlu síldarsjóhúsi. Á efri hæð hússins er verbúð sjómanna í upprunalegri mynd. Boðið var upp á fjóra laxarétti úr laxi frá laxeldisfyrirtækinu Kaldvík sem var framreiddur af dönskum Michelin-kokki sem ásamt fleirum var kominn austur til að taka þátt í matarmóti á Egilsstöðum þann 9. nóvember.
Undir borðum fengu gestir kynningu frá Kaldvík og bæjarstjóri Fjarðabyggðar kynnti verkefnið Orkugarð Austurlands sem er samstarfsvettvangur um nýtingu grænna tækifæra á Austurlandi.
Föstudagurinn rann upp og segja má að veðurguðirnir hafi verið í sínu besta skapi og lagði hópurinn af stað í rútuferð Fljótsdalshringinn.
Fyrsti viðkomustaðurinn var Vallanes, þar sem lífræn ræktun hefur verið stunduð um árabil ásamt ferðaþjónustu. Hópurinn fékk kynningu á matvælaframleiðslu fyrirtækisins en einnig kynningu á húsnæði sem byggt hefur verið úr eigin skógi og viðarkyndingu m.a. úr viðarperlum.
Því næst var tekið hús á Hallormsstaðaskóla þar sem skólameistari tók á móti hópunum og fór yfir sögu skólans og sérstöðu námsframboðs skólans m.a. í skapandi sjálfbærni. Hópurinn rölti um þetta sögufræga hús og kynntist verkefnum nemenda í nútíð og fortíð.
Næsta heimsókn var í fyrirtækið Skógarafurðir á Ytri-Víðivöllum 2 í Fljótsdal. Fyrirtækið er ört vaxandi fyrirtæki sem framleiðir ýmsar afurðir úr íslenskum nytjaskógum, sínum eigin skógum en einnig úr skógum annarra skógarbænda. Helstu framleiðsluvörur fyrirtækisins eru klæðningar, pallaefni og panill og þá er fyrirtækið að setja á markað eldiviðarkubba sem framleiddir eru úr sagi sem til fellur.
Þessu næst var haldið í Végarð þar sem hópnum var boðið upp á hádegisferð og fékk kynningu sveitarfélagsins Fljótsdalshrepps á nýrri skipulagstillögu sem er í vinnslu þar sem verið er að skipuleggja fyrsta þéttbýlið í sveitarfélaginu.
Á heimleiðinni var gert örstutt stopp í nýju þjónustuhúsi við Hengifoss sem byggt var við fossinn til að bæta þjónustu við ferðamenn. Þjónustuhúsið samanstendur af sjö salernum, ásamt rúmlega 100 fm. sal, starfsmannaaðstöðu og geymslum. Í húsinu er núna ljósmyndasýning en ekki er gert ráð fyrir veitingasölu eða annarri starfsemi eins og stendur. Í raun var auglýst eftir hugmyndum að rekstri í húsinu. Árið 2016 var haldin hönnunarsamkeppni og valin var hönnun Eriks Rönning Andersen og Sigríðar Önnu Eggertsdóttur. Framkvæmdasjóður ferðamannastaða veitti styrk í uppbygginguna. Bílastæðagjöld eru innheimt á staðnum sem er ætlað að standa undir umhirðu við áfangastaðinn.
Síðasti viðkomustaður dagsins var í Sláturhúsinu á Egilsstöðum þar sem undirbúningur Matarmóts var í fullum gangi. Hópurinn fékk kynningu á Sláturhúsinu sem er menningarmiðstöð og eitt af nokkrum menningarhúsum á Austurlandi. Auk menningarstarfsemi er rekið ungmennahús í einum hluta hússins.
Þá var dagskráin tæmd og fundargestir héldu til síns heima, eftir lærdómsríka ferð á Austurland.