Í dag var gefin út fyrsta Deiglan og inniheldur hún fyrstu fyrirtækjakönnun sem gerð hefur verið á landsbyggðinni. Niðurstöðurnar byggja á spurningakönnun sem var lögð fyrir fyrirtæki í öllum landshlutum, nema á höfuðborgarsvæðinu, í nóvember 2018 og stóð yfir til loka janúar 2019. Nokkuð mörg fyrirtæki af höfuðborgarsvæðinu voru hins vegar með í könnuninni en það er af því að þau starfa á landsbyggðinni. Rúmlega 2000 fyrirtæki tóku þátt.
Þegar niðurstöður voru skoðaðar fyrir Vesturland sérstaklega og þær bornar saman við aðra landshluta kom m.a. í ljós að styrkleikar svæðisins felast í nokkuð miklum vilja fyrirtækjanna til að ráða fólk með skólagöngu að baki. Því má segja að fyrirtæki á Vesturlandi vilji sækja fram í þekkingardrifinni framleiðslu eða þjónustu.
Þá var vinnuaflsvægið hvergi hærra. Það þýðir að fyrirtæki á Vesturlandi eru mjög vinnuaflsfrek í samanburði við önnur landsvæði.
Að auki lenti landshlutinn í öðru sæti þegar horft var til skapandi greina. Það var eingöngu atvinnulíf á Vestfjörðum sem var duglegra við að byggja afkomu sína á skapandi greinum.
Á Vesturlandi var að finna bæði landsvæði með fyrirtæki sem sýndu einna bestu afkomuna til lengri tíma litið og fyrirtæki með einna verstu afkomuna. Dalirnir komu illa út hvað varðar fjölgun eða fækkun starfsfólks. Einnig varðandi þörfina fyrir menntað vinnuafl og vinnuafl með sérstaka færni en hún er einstaklega lítil þar. Einnig ráku þeir lestina varðandi fjárfestingarhug, viðskipti við ferðaþjónustufyrirtæki og væntingar um tekjur á næsta ári. Þá var hugur til fjárfestinga óvenju lítill hjá fyrirtækjum á Akranessvæðinu og ferðaþjónusta veik á Akranesi. Afkoma til lengri tíma kom illa út á Borgarfjarðarsvæði.
Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi leiddu vinnuna við gerð könnunarinnar, en hún er samstarfsverkefni atvinnuþróunarfélaga, Byggðastofnunar og landshlutasamtaka á Íslandi og er þetta önnur skýrslan sem kemur út á vegum þess. Ætlunin er að halda því áfram og gera könnun meðal fyrirtækja og íbúa um land allt með reglubundnum hætti auk annarra tilfallandi verkefna. Samstarfsvettvangurinn mun gefa út efni sitt í vefriti sem kallað er Deigla og kemur fyrst út núna undir því nafni.
Skýrsluna í heild má finna á þessari vefslóð:
Fyrirtækjakönnun 2018