Forvitnir frumkvöðlar fóru vel af stað

SSVFréttir

Á þriðjudag fór fram fyrsti fyrirlestur á vegum Forvitinna frumkvöðla, en það er heiti fyrirlestraraðar á vegum landshlutasamtakanna á Íslandi: Austurbrúar, SASS, SSNE, SSNV, SSS, SSV og Vestfjarðarstofu. Það var Arnar Sigurðsson sem reið á vaðið og fjallaði fyrirlestur hans um frumkvöðlaferlið, sem er vel við hæfi til að setja tóninn fyrir framhaldið hjá þeim fjölmörgu gerðum frumkvöðla sem fyrirfinnast hér á landi. Gaman var að sjá góða mætingu á viðburðinn og finna þakklætið fyrir framtakið.

Fyrirlestur Arnars var skemmtilegur og vekjandi í ljósi þess sem frumkvöðlar standa frammi fyrir. Áhugavert var að heyra Arnar tala um að fólk tengi ekki endilega við hugtakið frumkvöðull og skilgreini sig sjálft síður sem slíkan.

Ráðgjafar um land
Arnar kom inn á að fólk nýti sér ekki endilega þau fjölmörgu verkfæri og úrræði sem standa frumkvöðlum til boða. Það má þó segja að hvort sem tengingin við frumkvöðlahugtakið sé fyrir hendi eður ei og hvort sem fólk tengi beint við að það fáist við nýsköpun: ef þú ert með nýja hugmynd sem þig langar að fylgja úr hlaði – heimsæktu atvinnuráðgjafa í þínum landshluta! Þar er kostur á ráðgjöf sem snert getur á ólíkum þáttum frumkvöðlaferlisins, auk þess sem þar er þekking á sjóðakerfinu sem fyrirfinnst hér á landi og á verkfærakistum sem hægt er að nýta sér.

Á Austurlandi má snúa sér til Austurbrúar

Á Suðurlandi má snúa sér til SASSHreiðursins eða Nýheima

Á Norðurlandi eystra má snúa sér til SSNE

Á Norðurlandi vestra má snúa sér til SSNV

Á Suðurnesjum má snúa sér til SSS,Heklunnar

Á Vestfjörðum má leita til Vestfjarðastofu sem er með starfsstöðvar á Ísafirði, Patreksfirði og Hólmavík

Á Vesturlandi má snúa sér til SSV eða Nývest

Við hvetjum fólk til að setja sig í samband ef það vill koma verkefnum sínum á koppinn. Atvinnuráðgjafar um landið halda líka almennt vel utan um umsóknarfresti í ólíka sjóði, en einnig má benda á styrkjadagatal skapa.is sem hægt er að nálgast hér.

Meira af frumkvöðlaferlinu

Fyrirlestur Arnars er hægt að sjá hér:

Auk þess að fjalla um hvað einkennir frumkvöðla (og ekki) fer hann í gegnum helstu stig ferlisins við að koma hugmynd yfir í raunheima og hvað frumkvöðlar þurfa að hafa í huga.

Næsti fyrirlestur í Forvitnum frumkvöðlum verður þriðjudaginn 4. febrúar. Þar mun Þórunn Jónsdóttir hjá SASS fjalla um umsóknarskrif.
Hægt er að fylgjast með fyrirlestraröðinni á Facebook-viðburðinum Forvitnir frumkvöðlar og einnig á heimasíðum landshlutasamtakanna.