Flokkun í anda hringrásarhagkerfis

SSVFréttir

Eitt af áhersluverkefnum sóknaráætlunar, Flokkun í anda hringrásarhagkerfis, hófst árið 2022. Tilgangurinn með verkefninu var að draga úr magni úrgangs sem fer til förgunar frá aðilum á Vesturlandi og bæta þar með nýtingu auðlinda, m.a. með hliðsjón af þeim breytingum á lögum um meðhöndlun úrgangs sem tóku gildi í janúar 2023.

Samið var við Environice ehf. um ráðgjöf í verkefninu sem var tvíþætt; annars vegar ráðgjöf fyrir sveitarfélög á Vesturlandi vegna þeirra nauðsynlegra breytinga sem sveitarfélögin þurftu að gera vegna breytinga á úrgangslöggjöfinni, og hins vegar  ráðgjöf til rekstraraðila um úrgangsstjórnun. Þar var áhersla á rekstraraðila þar sem, vegna eðli starfseminnar, líklegt er að mikið falli til af lífrænum úrgangi.

Innan verkefnisins var unnin umfangsmikil greining á ráðstöfun dýraleifa, þar sem málaflokkurinn er flókinn og ákveðin óvissa var ríkjandi um skyldur sveitafélaga og ábyrgð og verkaskiptingu mismunandi aðila. Þessi greining var sett fram í minnisblaði sem hefur gagnast sveitarfélögum á Vesturlandi, en ekki síður öllum sveitarfélögum á landinu, samtökum þeirra  og ráðuneytum sem koma að málaflokknum.

Sex af níu sveitarfélögum á starfssvæði SSV nýttu sér ráðgjöf sem stóð til boða vegna breytinga á úrgangslöggjöfinni, sem var sérsniðin að þörfum hvers sveitarfélags.

Í öðrum hluta verkefnisins var rekstraraðilum boðið að þiggja ráðgjöf í úrgangsmálum. Auglýst var eftir áhugasömum þátttakendum í þremur flokkum; matvöruverslanir, matvælavinnslur og veitingastaðir. Áhugi var undir væntingum, en að endingu voru það tvö fyrirtæki sem þáðu boðið; ein matvöruverslunarkeðja sem starfrækir fjórar verslanir á Vesturlandi og eitt fyrirtæki í matvælaframleiðslu. Ráðgjafi heimsótti allar starfsstöðvar og ræddi við forsvarsmenn um hvaða möguleikar væru til staðar um frekari nýtingu úrgangs og í framhaldinu var veitt ráðgjöf og minnisblaði skilað sem nýtist rekstraraðilunum til framtíðar.

 

Skýrsla um framgang verkefnisins er aðgengileg hér:  Lokaskýrsla Environice til SSV des 2024 LOKA