Undanfarin þrjú ár hafa nýsköpunarverðlaun SSV verið veitt fyrirtækjum sem þykja hafa komið fram með áhugaverða nýjung á árinu. Þessi verðlaun voru fyrst veitt árið 2016 og þá varð Cave, fyrirtækið sem rekur ferðaþjónustu við hellinn Víðgelmi í Borgarfirði, fyrir valinu. Árið 2017 var fyrirtækið Asco Harvester í Stykkishólmi valið, en fyrirtækið hannaði og smíðaði þangskurðarpramma sem var tekinn í notkun á því ári. Loks var á síðasta ári fyrirtækið Guðmundur Runólfsson hf. fyrir valinu. Á fimmtíu ára afmælishátíð SSV í Hjálmakletti síðastliðinn föstudag voru verðlaunin afhent í fjórða skipti og komu þau í hlut Bergþórs Kristleifssonar og Hrefnu Sigmarsdóttur sem reka Ferðaþjónustuna á Húsafelli. Sá háttur er hafður á að atvinnuráðgjafar SSV tilnefna þrjú fyrirtæki og voru tilnefningarnar lagðar fyrir stjórn SSV. Niðurstaða stjórnar var einhuga um að velja Ferðaþjónustuna Húsafelli.

Í umsögn stjórnar SSV segir: „Um árabil hefur verið rekin ferðaþjónusta í Húsafelli og var sérstakt fyrirtæki stofnað í kringum hana árið 1990. Kristleifur Þorsteinsson á Húsafelli var í raun frumherji í uppbyggingu ferðaþjónustu á Vesturlandi og hefur fjölskylda hans haldið uppbyggingunni áfram af miklum dugnaði. Þar hefur verið skipulagt svæði undir sumarhús og eru um 200 hús í Húsafelli í dag. Sundlaug, tjaldsvæði, verslun og veitingaþjónusta, golfvöllur og ýmiskonar afþreying er þar til staðar. Árið 2015 opnaði nýtt glæsilegt hótel í Húsafelli. Þá hefur ferðaþjónustan byggt upp virkjanir til að þjónusta sumarhúsaeigendur og nýverið var tekin í notkun ný virkjun sem selur rafmagn inn á dreifikerfi Rarik. Því má segja að Húsafell sé í dag sjálfbært svæði, með rafmagn, kalt vatn og heitt vatn. Á árinu 2018 var unnið markvisst að gerð og merkingu göngustíga við og í nágrenni Húsafells og haldið áfram með það verkefni á þessu ári. Á þessu ári hefur einnig verið unnið að gerð Giljabaða, sem eru náttúruböð í Hringsgili fyrir ofan Húsafell. Böðin eru tilbúin og verður innan skamms farið að selja gestum aðgengi. Allar framkvæmdir eru unnar af smekkvísi og miklum metnaði.
Ferðaþjónustan í Húsafelli hefur verið í stöðugri nýsköpun frá því að Kristleifur færði sig úr hefðbundnum búskap í ferðaþjónustu árið 1968. Það má því með sanni segja að Ferðaþjónustan í Húsafelli sé nokkurs konar samnefnari þeirrar uppbyggingar sem hefur orðið í ferðaþjónustu á Vesturlandi á starfstíma SSV.“
Hrefnu og Bergþóri var til minningar afhent listaverk eftir Dýrfinnu Torfadóttur gullsmið.