Félagssálfræðileg rannsókn á þremur íslenskum sveitarfélögum

SSVFréttir

Bjarki Þór Grönfeldt, doktor í stjórnmálasálfræði ásamt Vífli Karlssyni, hagfræðingi og dósent við Háskólann á Bifröst hafa gefið út skýrslu sem ber heitið Byggðabragur: Félagssálfræðileg rannsókn á þremur íslenskum sveitarfélögum. 

Aðdragandi rannsóknarinnar var sá að íbúakannanir hafa bent til þess að svokallaður byggðabragur geti verið gjörólíkur milli áþekkra sveitarfélaga. Með byggðabrag er átt við upp að hvaða marki íbúar eru ánægðir með sveitarfélagið, þeim þyki þjónusta góð, þeir séu bjartsýnir á framtíðina og vilji halda áfram búsetu sinni á svæðinu. Gögn frá þremur aðliggjandi svæðum, Dalabyggð, Húnaþingi vestra og Húnabyggð, hafa ítrekað sýnt að ánægja íbúa sé meiri í Húnaþing vestra en í Dalabyggð og Húnabyggð þrátt fyrir að ekki sé endilega augljóst hvað valdi þessum mun. Bjarki nýtti bakgrunn sinn í félagslegri sálfræði til að kafa með nýstárlegum hætti í því hvað gæti útskýrt þetta mynstur.

Niðurstöður stórra spurningakannana í öllum þremur sveitarfélögunum leiddu í ljós að tölfræðilega marktækur munur var á nokkrum mælikvörðum: Trú á getu samfélagsins til að takast á við áskoranir, félagslegri samheldni íbúa, hve vel íbúar gætu uppfyllt þarfir sínar í sveitarfélaginu, hvort hrepparígur væri vandamál, hvort erfiðleikar væru í samstarfi dreifbýlis og þéttbýlis og hvort slúður og neikvæðni væru metin sem vandamál í sveitarfélaginu. Húnaþing vestra skilaði jákvæðari niðurstöðum á þessum mælikvörðum. Þessar tölfræðilegu niðurstöður voru krufnar betur í rýnihópum með íbúum í öllum sveitarfélögunum.

Af umræðum í rýnihópunum að dæma voru þónokkrar ástæður fyrir hendi sem skýrt gætu muninn. Fyrir það fyrsta töldu þátttakendur í Húnaþingi vestra samfélagið vera mjög opið, sem helgaðist af því að samfélagið (og þá aðallega þéttbýlið á Hvammstanga) sé ekki eins rótgróið og fastmótað og í hinum sveitarfélögunum. Allir séu með einhverjum hætti aðkomumenn. Áberandi var að íbúar í Húnaþingi vestra voru stoltir af sterkum fyrirtækjum í eigu heimamanna og telja sig njóta góðs af því að hafa áhrif á þjónustu þeirra. Eignarhald „yfir björgunum“ virðist skipta miklu máli og ljáir íbúunum rödd og færir þeim trú á samfélagið. Þá virðist vera að í Húnaþingi vestra hafi tekist að byggja brýr á milli dreifbýlis og þéttbýlis með velheppnaðri sameiningu.

Fjölmargt fleira mætti tína til en vert er að nefna að ein af upphaflegu tilgátum rannsóknarinnar stóðst ekki. Hún gerði ráð fyrir því að munurinn á milli sveitarfélaganna lægi í því að íbúar Húnaþingi vestra hefðu sterkari sálfræðilega tengingu við sveitarfélagið (m.ö.o.að íbúar sveitarfélagsins hefðu sterkari sjálfsmynd sem hópur). Þvert á móti virðast íbúar allra sveitarfélaganna hafa nokkuð sterka sjálfsmynd og þykja vænt um sveitarfélagið sitt. Það sem virðist greina á milli þeirra er trú á styrk samfélagsins, ánægja með þá nærþjónustu sem í boði er og samheldni ólíkra byggðarlaga innan sveitarfélagsins. Þörf er á frekari rannsóknum á sviðinu en vonast er til þess að aukin þekking á sálfræðilegum hliðum byggðamála geti stuðlað að sterkari og sjálfbærari samfélögum og aukinni byggðafestu.

Skýrsluna í heild sinni má finna í hlekk  hér fyrir neðan:

https://www.bifrost.is/um-haskolann/frettir-og-tilkynningar/byggdarbragur-rannsakadur