Miðvikudaginn 1. október var skrifað undir samstarfsyfirlýsingu meðal sveitarfélaga og stofnanna á Vesturlandi og þar með var Farsældarráð Vesturlands stofnað. Farsældarráð Vesturlands er annað ráðið sem er stofnað á landinu og munu fleiri svæðisbundin farsældarráð verða stofnuð á landsvísu en þau eru í samræmi við 5. gr. laga nr. 86/2021 um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna. Þar segir að sveitarfélög skuli skipa svæðisbundin farsældarráð sem eru vettvangur fyrir svæðisbundið samráð um farsæld barna og þar eigi sæti fulltrúar svæðisbundinna þjónustuveitenda á vegum ríkis og sveitarfélaga. Svæðisbundin farsældarráð vinna áætlun um svæðisbundna forgangsröðun aðgerða um farsæld barna til fjögurra ára sem tekur mið af þingsályktun um stefnu um farsæld barna og framkvæmdaáætlun ríkisins og niðurstöðum farsældarþings.
Að samstarfinu standa Akraneskaupstaður, Borgarbyggð, Dalabyggð, Eyja-og Miklaholtshreppur, Grundarfjarðarbær, Hvalfjarðarsveit, Skorradalshreppur, Snæfellsbær og Stykkishólmsbær, Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi, Lögreglan á Vesturlandi, Sýslumaðurinn á Vesturlandi, Svæðisstöð íþróttahéraða, Heilbrigðisstofnun Vesturlands, Ungmennaráð Vesturlands, Fjölbrautaskóli Vesturlands, Fjölbrautaskóli Snæfellinga og Menntaskóli Borgarfjarðar.
Samstarfsyfirlýsingin tekur mið af tímabilinu 1.10.2025- 31.12.2026 og lagt er upp með áframhaldandi samstarfi að þeim tíma loknum.
Bára Daðadóttir verkefnastjóri farsældarmála hjá SSV mun halda utan um verkefnið á samningstímanum í samstarfi við þau sveitarfélög og stofnanir sem að samstarfsyfirlýsingunni standa.
Farsældarráð Vesturlands er því mikilvægur vettvangur til þeirrar góðu og mikilvægu vinnu.