Dagur landsbyggðafyrirtækja – #ruralbusiness day

SSVFréttir

Digi2Market verkefnið stendur fyrir #ruralbusiness samfélagsmiðladegi þann 19. janúar 2022.

Markmiðið er að vekja athygli á því frábæra fólki, þjónustu og vörum fyrirtækja í landsbyggðunum, sem eiga stóran þátt í að styðja við og byggja upp samfélögin í hinum dreifðari byggðum. Við viljum ná eins mörgum með og við mögulega getum á Íslandi, Írlandi, Finnlandi, um alla Evrópu og víðar til að deila efni með #landsbyggdafyrirtaeki eða #ruralbusiness.

Við viljum aðstoða fyrirtæki í landsbyggðunum að vaxa, styrkja viðskiptatengsl þeirra út um Evrópu og allan heim og kynna þau á sem breiðustum alþjóðlegum vettvangi.

Lítil og meðalstór fyrirtæki í landsbyggðunum eru mikilvæg svæðisbundnum hagkerfum og samfélögunum sem þau starfa í. En frumkvöðlarnir á bak við fyrirtækin upplifa sig oft einangraða og skynja erfiðleika við að komast inn á stærri markaði. Digi2Market tengir þau við tengslanet á netinu og hjálpar þeim við að auka markaðshlutdeild sína og vaxa. Þú getur hjálpað þeim með því að deila því sem þér finnst best við þau.

Hverjir geta tekið þátt?

Fyrirtækjaeigendur, starfsfólk, vinir, fjölskylda, íþróttafélög, samtök, einstaklingar sem eiga viðskipti við fyrirtæki í landsbyggðunum, áhrifavaldar og í rauninni bara hver sem er, sem vill styðja við rekstur í landsbyggðunum.

Hverju á að deila?

Segðu frá uppáhalds fyrirtækinu í þinni heimabyggð og hvað það er sem er svo frábært við það/þau. Sýndu þeim stuðning með því að deila þinni upplifun.

Deildu einhverju um fyrirtækið sem þú átt eða starfar hjá, hver starfsemin er, hvernig það þjónustar viðskiptavinina og hvernig það styður við samfélagið.

Hvaða fólk er á bak við fyrirtækið? Hvað er það búið að vera lengi í rekstri? Af hverju er gott/gaman að vinna hjá þessu fyrirtæki? Gerir fyrirtækið eitthvað fyrir samfélagið?

Deildu upplýsingum og ráðum um sjálfbæran rekstur og hvernig á að gera reksturinn sjálfbærari.

Að lokum er gott að bæta mynd við póstinn.

Við hvetjum fólk til að nota sína samfélagsmiðla: Instagram, facebook, twitter, Linkedin eða aðra sem eru í notkun.

Hérna má finna nánari upplýsingar um hvernig efni þú gætir deilt.


Digi2Market 

–  er samstarfsverkefni fjögurra aðila frá Írlandi, Norður-Írlandi, Finnlandi og Íslandi, sem vinnur að bættum möguleikum  fyrirtækja í hinum dreifðu byggðum landanna til að bæta aðgengi fyrir vörur sínar og þjónustu að mörkuðum utan upprunasvæðisins.