Blað brotið í upplýsingagjöf til ferðalanga um Ísland

SSVFréttir

Markaðsstofur landshlutanna ýta úr vör langstærsta samstarfsverkefni sem samtökin hafa ráðist í. Verkefnið er mikilvægur hlekkur í enduruppbyggingu ferðaþjónustunnar í kjölfar heimsfaraldurs. 

Markaðsstofur landshlutanna, MAS, ýta á fimmtudaginn úr vör samstarfsverkefni sem miðar að því að auðvelda og hvetja enn frekar til ferðalaga innanlands. Verkefnið er liður í að auka á dreifingu ferðamanna um landið sem og styðja við uppbyggingu íslenskrar ferðaþjónustu í kjölfar heimsfaraldurs. Þetta er langstærsta þróunarverkefni sem MAS hefur tekið sér fyrir hendur.

Verkefnið ber yfirskriftina Upplifðu og er sannkölluð stafræn bylting þegar kemur að skipulagningu ferðalaga um Ísland sem og upplýsingagátt um það sem í boði er. Allar sex markaðsstofur landshlutanna, Markaðsstofa Norðurlands, Markaðsstofa Vestfjarða, Markaðsstofa Vesturlands, Austurbrú, Markaðsstofa Reykjaness og Markaðsstofa Suðurlands standa að verkefninu.

Um ræðir gagnvirkt vefsvæði, www.upplifdu.is þar sem notendum gefst kostur á að sníða ferðalagið nákvæmlega eftir sínu höfði og fá aðstoð við að sjá hvað er í boði á hverjum stað, fá nákvæma tímaáætlun milli áfangastaða og síðast en ekki síst, uppgötva nýja möguleika á myndrænan hátt.

Þetta vefsvæði gefur markaðsstofunum tækifæri til að miðla samræmdum upplýsingum á einfaldann og aðgengilegan hátt um áhugaverða stað, þjónustu og upplifun á öllu landinu. Þeir sem ferðast um landið geta nýtt þetta vefsvæði til að skoða og setja saman ferðaplan með þeim áherslum sem þau vilja. Þannig gefum við fólki tækifæri til að kynna sér hvað er í boði á hverjum stað og landssvæði. Við hvetjum fólk til að ferðast hægar, dvelja og njóta á ferð sinni um landið” segir Margrét Björk, forstöðumaður Markaðsstofu Vesturlands.

Upplifdu.is brýtur þannig blað í sögu upplýsingagjafar til ferðalanga um Ísland en ekki eru fordæmi fyrir viðlíka gagnvirkri síðu með jafn yfirgripsmiklar upplýsingar á fjölmörgum sviðum ferðaþjónustu á Íslandi. Þróun og framleiðsla er í höndum framleiðslustofunnar Tjarnargötunnar og er myndefnið sem prýðir síðuna unnið úr einum stærsta myndabanka sem gerður hefur verið úr efni frá Íslandi.

„Það er frábært að vera komin með gagnvirkan upplýsingagrunn sem hægt er að vinna með frá degi til dags til að koma upplýsingum og skilaboðum til þeirra sem vilja sækja okkur heim. Við getum svo haldið áfram að þróa þetta kerfi til að efla og bæta upplýsingagjöf, stuðla að ábyrgri ferðahegðun, efla gæða ferðaþjónustu og leggja grunn að ánægjulegri upplifun gesta um allt land. Það er hagur okkar allra að fólk geti ferðast um landið, upplifað og notið alls þess sem þar er í boði og er aðgengilegt. Velkomin á Vesturland til að dvelja og njóta” segir Margrét Björk.

Allar frekari upplýsingar veitir Margrét Björk, forstöðumaður og Björk Júlíana, verkefnisstjóri markaðssmála hjá Markaðsstofu Vesturlands í síma 433 8820

Viðbót um virkni síðunnar: 

Síðan er einföld í notkun og miðar að því að sem flestir geti nýtt sér hana. Notendur velja sér upphafspunkt ferðalags og geta svo séð hvað er í boði á hverjum þeim stað sem heillar og handvelja hvað skuli heimsækja og hvaða afþreyingu og þjónustu skuli nýta meðan á heimsókn stendur. Hægt er að velja þar til gerðar síur til að auðvelda enn frekar skipulagningu ferðarinnar og eru þær síur þrjár; staðir, afþreying og þemu. Sían staðir nær til að mynda yfir kirkjur, fornminjar, útsýni, gil og gljúfur, jökla og hella. Afþreying yfir baðstaði, hvalaskoðun, matarupplifanir, hjólaferðir, golfvelli, dýragarða ofl. Þemun endurspegla svo tegund ferðar, fjölskylduferð, ævintýraferð, söguslóðir, afslöppun, menningu, dýralíf eða náttúru.

Þegar búið er að velja eru óskir ferðalangsins dregnar saman og úr verður heildstæð ferðaáætlun í formi myndbands sem og skjals, sem nær ekki aðeins utan um spennandi ferðalag heldur einnig utan um hagnýta hluti eins og lengd aksturs milli áfangastaða og áætlaðan tíma í hverri afþreyingu.

Sjá enn frekar : www.upplifdu.is