Bilun í búnaði hjá Norðuráli á Grundartanga 21. október 2025 veldur miklum áhyggjum á Vesturlandi, þar sem framleiðslugeta verksmiðjunnar gæti dregist saman um tvo þriðju hluta á meðan viðgerðir standa yfir. Í Glefsunni var spurt: Hversu mikið lækkuðu tekjur þriggja sveitarfélaga á Vesturlandi ef sama hlutfall starfsmanna Norðuráls misstu vinnuna í 12 mánuði?
Samkvæmt úttekt Vífils Karlssonar fyrir Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi gætu útsvarstekjur sveitarfélaga á Vesturlandi lækkað um alls 312 milljónir króna á næstu tólf mánuðum ef bilunin hefði þessi áhrif. Þessi tala hefði verið 852 milljónir króna ef Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga hefði ekki notið við.
Mest yrði höggið hjá Akraneskaupstað, þar sem áætlað er að tekjur lækki um 229 milljónir króna, eða um 3,4% eftir að tekið er tillit til jöfnunarsjóðsframlags. Í Borgarbyggð gæti tekjulækkunin numið 60 milljónum króna (1,9%) og í Hvalfjarðarsveit 29 milljónum (4,8%). Atvinnumargfaldarinn fyrir Akraneskaupstað var metinn 2,5, sem gæti þýtt að allt að 635 gætu misst störf sín tímabundið í tengslum við bilunina,.
Norðurál, sem hóf starfsemi árið 1998, hefur verið einn stærsti vinnuveitandi á Vesturlandi. Fyrirtækið jók framleiðslugetu sína úr 60 þúsund tonnum í 317 þúsund tonn árið 2005 og starfsmenn þá um 600 en 675 árið 2024. Þetta og fleira má finna í nýrri Glefsu sem kom út í dag (SMELLIÐ HÉR).