Atvinnuráðgjafar og starfsfólk Byggðastofnunar í heimsókn hjá Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri

SSVFréttir

Nýverið fór fram fundur atvinnuráðgjafa landshlutasamtaka sveitarfélaga og Byggðastofnunar á Varmalandi.  Þessi hópur fundar reglulega að vori og á hausti þar sem farið er yfir ýmis verkefni sem tengjast byggðaþróun og málefnum atvinnulífs á landsbyggðinni.  Auk þess að funda á Varmalandi fór hópurinn í heimsókn í Landsbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri þar sem þær Ragnheiður Inga Þórarinsdóttir rektor og Áshildur Bragadóttir verkefnisstjóri tóku á móti hópnum.  Ragnheiður kynnti starfsemi skólans og helstu áherslur í framtíðarstefnu hans, en fram kom hjá henni að starfsemi skólans gengur mjög vel en nemendum hefur fjölgað og ýmiskonar starfsemi eins og rannsóknir hefur eflst undanfarið.  Áshildur kynnti fyrirhugaða stofnun nýsköpunar og þróunarseturins Gleipnis, en LBHÍ og Háskólinn á Bifröst hafa unnið að stofnun þess undanfarna mánuði ásamt aðilum á Vesturlandi og víðar af landinu.  Markmiðið með stofnun Gleipnis er að skapa umhverfi fyrir samvinnu, þróun og miðlun ólíkrar þekkingar á sviði rannsókna, nýsköpunar og sjálfbærni með það að leiðarljósi að styrkja samkeppnisstöðu íslensks samfélags, efla atvinnu og byggðaþróun og auka lífsgæði í landinu.  Þá er nýja setrinu einnig ætlað að vera virkur þátttakandi í að ná fram markmiðum og skuldbindingum stjórnvalda á sviðum nýsköpunar og fræðslu á sviði landbúnaðar, matvælaframleiðslu, sjálfbærni og loftslagsmála, auk þess að efla nýsköpunar- og frumkvöðlastarf á landsbyggðinni.

Þeir Vífill Karlsson hagfræðingur hjá SSV og Stefán Kalmansson  aðjúnkt og verkefnisstjóri við Háskólann á Bifröst voru síðan með stutt erindi þar sem þeir fóru yfir þau tækifæri í liggja í samstarfi háskólanna, landshlutasamtaka og Byggðastofnunar þegar kemur að ýmsum verkefnum sem snúa að byggðaþróun, nýsköpun og eflingu atvinnulífs.  Í umræðu sem varð í kjölfar erindanna kom glöggt í ljós að það eru ýmis tækfæri til samstarfs og mikilvægt að stilla saman strengi til þess að styrkja landsbyggðina.