Á undanförnum misserum hefur KPMG unnið sviðsmyndagreiningu á þróun atvinnulífs á Vesturlandi og í lok árs 2019 kom skýrslan „Atvinnulíf á Vesturlandi 2040“ út.
Verkefnið „Sviðsmyndir um þróun atvinnulífs á Vesturlandi“ er eins og áður kom fram unnið af KPMG fyrir Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi(SSV). Ástæða þess að ákveðið var að ráðast í þessa vinnu er sú að SSV fagnaði 50 ára afmæli á árinu 2019 og í tilefni þessara tímamóta þótti við hæfi að horfa til framtíðar og velta vöngum yfir því hvernig atvinnulíf og samfélagið geti mögulega þróast næstu 20 árin.
Tekin voru viðtöl við ýmsa fulltrúa sveitarfélaganna og aðila úr atvinnulífi Vesturlands ásamt því að senda út rafræna könnun til fjölmargra aðila sem tengjast atvinnulífi svæðisins. Einnig voru haldnir vinnufundir til að greina drifkrafta atvinnulífs og samfélags og til að skapa grunn sviðsmyndanna. Þessir fundir voru haldnir með breiðri þátttöku sveitarstjórnarmanna, fulltrúa fyrirtækja, háskóla og stofnana. Á fundunum voru mótaðar sviðsmyndir sem lýsa mögulegri framtíðarþróun atvinnulífs og samfélags á Vesturlandi til ársins 2040.
Það er von stjórnar SSV að þær sviðsmyndir sem hér eru dregnar upp geti reynst sveitarfélögum, atvinnulífi og öðrum þeim sem vilja skoða hvernig atvinnulíf og samfélag á Vesturlandi geti þróast, ákveðin vegvísir.