Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi héldu sinn árlega aðalfund í gær 26. mars. Á fundinum var samþykkt ályktun um vegamál. Þar skora samtökin á ríkisstjórn Íslands að samþykkja neyðarfjárveitingu til viðhalds og endurbóta vega á Vesturlandi.
„Aðalfundur Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi haldinn í Borgarnesi 26.03 2025 skorar á ríkisstjórn Íslands að samþykkja neyðarfjárveitingu til viðhalds og endurbóta vega á Vesturlandi.
Þrátt fyrir ítrekaðar ályktanir og ábendingar undanfarin ár um ástand þessara vega hefur lítið áunnist og í febrúar sl. keyrði um þverbak þegar tilteknir vegarkaflar urðu nær ófærir vegna hættulegs ástands. Vegagerðin gaf út tilkynningu 13. febrúar sl. þar sem lýst var yfir hættustigi vegna bikblæðinga á átta stöðum á þjóðvegum á Vesturlandi, aðallega á Snæfellsnesvegi og Vestfjarðavegi í Dalabyggð. Þessar bikblæðingar bættust við afar bágborið ástand sem fyrir var á fyrrnefndum vegum. Ljóst er að öryggi vegfarenda var í hættu og að neyðarakstur við slíkar aðstæður hefði farið fram með óviðunandi áhættu fyrir heilsu og líf fólks.
Á sama tíma og ástandið er óboðlegt hefur umferð um vegi á Vesturlandi aukist verulega, ekki síst umferð flutningabíla og hópferðabíla, sem veldur auknu sliti á vegunum. Á fundum undanfarið með ráðherrum og þingmönnum Norðvesturkjördæmis hefur verið áréttað að við þessu ástandi tiltekinna vegarkafla verði að bregðast strax, með neyðarfjárveitingu í allra brýnustu viðgerðirnar, til að tryggja íbúum, atvinnulífi og ferðafólki lágmarks öryggi á vegunum.
Aðalfundurinn vill þakka forsætisráðherra og innviðaráðherra fyrir að hafa brugðist hratt við ákalli sveitarstjórnarfólks á Vesturlandi um fund þar sem gafst tækifæri til þess að koma skilaboðum landshlutans á framfæri.
Vegagerðin hefur lagt fram tillögur um forgangsröðun viðhaldsverkefna á Vesturlandi á þessu ári og til næstu þriggja ára. Þau verkefni munu leysa úr brýnustu þörfinni og tryggja lágmarksöryggi fyrir vegfarendur og að atvinnulífið á Vesturlandi haldi takti. Það er nauðsynlegt að nú þegar verði brugðist við þessu neyðarástandi og fjármagni veitt til brýnustu verkefna sem Vegagerðin hefur forgangsraðað á Vesturlandi.“