Ályktun um samgöngumál.
Á nýafstöðnum aðalfundi Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi var samþykkt ályktun um samgöngumál þar sem þess er krafist að sem fyrst verði vegsamband á milli Vesturlands og höfuðborgarsvæðisins bætt í samræmi við breytta byggðaþróun og aukið umferðarálag á svæðinu.
Í greinargerð með fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2008 kemur fram að áformað er að fresta framkvæmdum við Sundabraut er nemur 1,5 milljarði króna frá því sem áætlað var á næsta ári.
Stjórn SSV mótmælir harðlega þessum niðurskurði og bendir á að bráðnauðsynlegt er að tryggja öruggar og góðar samgöngur milli höfuðborgarinnar og alls vestur- og norðurhluta landsins.
Núverandi umferðarmannvirki anna ekki umferð á annatímum og eykur kostnað íbúa og atvinnulífs.
Stjórn SSV bendir á að hægt sé að byrja framkvæmdir við Sundabraut frá Kjalarnesi og krefst þess að fallið verði frá fyrirhugaðri frestun framkvæmda við Sundabraut.