Nýr hagvísir – Þróun útsvars árin 2001-2006

Samtök Sveitarfélaga á VesturlandiFréttir

Út er kominn nýr hagvísir og fjallar hann um þróun útsvars árin 2001-2006. Höfundur er Vífill Karlsson.
Í nýútkomnum hagvísi var álagt útsvar til skoðunar. Því hefur verið haldið fram að sveitarfélög hafi notið hagvaxtarskeiðsins og að álagt útsvar eigi að hafa hækkað um 29% að raungildi á tímabilinu 2001-2006. Þetta getur verið villandi alhæfing samkvæmt útreikningum sem kynntir eru í þessari skýrslu.
Á Vesturlandi hefur álagt útsvar þróast með misjöfnum hætti árin 2001-2006. Það hefur þróast allt frá því að dragast saman um 2% að raungildi eins og í Stykkishólmi og í að hækka um allt að 70% eins og í Eyja- og Miklaholtshreppi.
Ýmsar ástæður eru fyrir því að útsvar þróast með misjöfnum hætti hjá sveitarfélögunum. Hér eru taldar til 6 ástæður sem útskýra stóran hluta þessarar þróunar á Vesturlandi. Þetta er svokölluð ehf.-væðing, fjölgun íbúa, tvöföld búseta, fjölgun eldri borgara, fjölgun íbúa á aldrinum 30-50 ára og fjöldi háskólanemenda.
Frekari greining gaf til kynna að þróun útsvars á viðkomandi tímabili er mjög misjöfn meðal sveitarfélaga á Íslandi. Svo virðist sem flokka megi þau tvo ólíka hópa; sveitarfélög þar sem útsvar hækkar mikið og sveitarfélög þar sem útsvari hækkar lítið. Fyrri hópurinn er í um 150 km radíus frá Reykjavík og hinn er fjær. Sveitarfélög á Vesturlandi eru í báðum hópum. Þá skera þrjú sveitarfélög sig úr á Austurlandi með óvenju mikla hækkun vegna stóriðjuframkvæmdanna.
Hagvísinn má finna á þessari síðu eða HÉR