Fréttatilkynning frá Samtökum sveitarfélaga á Vesturlandi.

Samtök Sveitarfélaga á VesturlandiFréttir

Fimm milljarða staðbundin efnahagsleg áhrif

á Vesturlandi vegna þorskaflasamdráttar

Áhrifin nema 2 milljörðum í Snæfellsbæ þar sem fiskveiðar og vinnsla standa undir 30 – 40% launa og rekstrarhagnaðar.
Staðbundin efnahagsleg áhrif á Vesturlandi af skerðingu þorskafla, sem stjórnvöld tilkynntu í gær, nema um fimm milljörðum króna á ári. Áhrifanna gætir lang mest í Snæfellsbæ þar sem þau eru reiknuð um tveir milljarðar króna árlega en fiskveiðar nema um 40% af þáttatekjum Snæfellsness og fiskvinnsla um 30%. Með þáttatekjum er átt við samtölu launa og rekstrarhagnaðar atvinnugreina. Hvergi á landinu eru fleiri fiskibátar en á Snæfellsnesi og stendur þetta svæði eitt og sér undir um 9% fiskveiða alls og 4% matvælaiðnaðar landsins. Vegna nálægðar við fengsæl þorskmið hafa veiðar á þorski og vinnsla verið ríkur þáttur í atvinnulífi íbúa Snæfellsness og þar af leiðandi er ákvörðun um 30% kvótasamdrátt í þorski þungt áfall fyrir svæðið. Skýrslan hér.

Þessar upplýsingar koma fram í nýrri skýrslu Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi sem kynnt er í dag og finna má á vef samtakanna www.ssv.is – sjá nánar HÉR
Ráðist var í gerð skýrslunnar í tilefni af veiðiráðgjöf Hafrannsóknastofnunarinnar frá því fyrr í sumar. Reiknað var út frá 30% samdrætti í þorskveiðum, eins og stjórnvöld tilkynntu í gær að fylgt yrði við úthlutun aflamarks á komandi fiskveiðiári. Höfundur skýrslunnar er Vífill Karlsson.
Sjávarútvegur snar þáttur í atvinnulífi Vesturlands
Tíu sveitarfélög eru á Vesturlandi og sjávarútvegur stundaður í fjórum þeirra að einhverju ráði. Þrjú af þessum sveitarfélögum eru hins vegar meðal þeirra 12 kvótaríkustu á landinu og eitt meðal þeirra 10 sveitarfélaga á landinu þar sem mest er verkað af þorski.
Skýrt kemur fram í skýrslunni að sjávarútvegur er snar þáttur í atvinnulífi Vesturlands. Atvinnugreinin hefur áberandi mesta vægið á Snæfellsnesi og verulegt á Akranesi. Rekstrartekjur fiskveiða á Snæfellsnesi einu námu um 9% af heildartekjum fiskveiða á landinu öllu á árinu 2005, sem segir mikið um væntanleg áhrif kvótasamdráttar.
Fram kemur í skýrslunni að Snæfellsnes hefur styrkt kvótastöðu sína síðan núverandi veiðistjórnunarkerfi var sett á. Mestur er kvótinn í Snæfellsbæ, eða 22 þúsund tonn á núverandi kvótaári. Hlutfallslega meiri fjöldi smærri báta er á svæðinu en annars staðar á landinu. Árið 2006 voru fiskiskip alls 109 í Snæfellsbæ, 58 í Stykkishólmi og 53 á Akranesi. Þar af voru fiskibátar undir 25 brúttólestum 82 í Snæfellsbæ, 50 á Akranesi og 47 í Stykkishólmi. Líklegt er að samfélagsáhrif af kvótaskerðingunni verði veruleg á bátaútgerðina þar sem hún er mannaflsfrekari en útgerð stærri skipa.
Tölur um landaðan afla á Vesturlandi sýna að uppsjávarfiskur er hátt hlutfall í löndun á Akranesi en þorskur á norðanverðu Snæfellsnesi.
Bein tengsl á milli vinnslumagns og búferlaflutninga fólks
Eins og áður segir leiðir skýrslan í ljós að efnahagsleg áhrif á Vesturlandi af skerðingu þorskkvóta nema 4,9 milljörðum króna á ári. Þar af nema þau 2 milljörðum í Snæfellsbæ, 1,6 á Akranesi, tæpum milljarði í Grundarfjarðarbæ, 350 milljónum í Stykkishólmi og 4 milljónum í Borgarbyggð.
Við þennan útreikning var gert ráð fyrir að veiðiheimildir næsta kvótaárs verði 30% lægri en fyrra árs. Til að meta virði kvótans var stuðst við 80% af markaðsvirði þorsks árið 2007. Það gaf 190 kr./kg. Tekið var tillit til meðafla með þeim hætti að skerðing hans næmi 75% af skerðingu þorsks. Virði meðafla var 103 kr./kg. samkvæmt sömu reiknireglu.
Þegar gögn um breytingu á kvótamagni, lönduðu magni og landvinnslumagni voru borin saman við tölur yfir aðflutta umfram brottflutta á Snæfellsnesi kom athyglisvert samband í ljós sem brjóta má upp í tvo þætti. Í fyrsta lagi hefur vinnslumagn marktæk jákvæð áhrif á tölur um aðflutta umfram brottflutta á Snæfellsnesi. Að sama skapi flytja fleiri frá byggðarlögunum en til þeirra ef vinnslumagn dregst saman. Í öðru lagi kemur í ljós að íbúar byggðarlaganna eru líklegri til að flytja brott ef vinnslumagn dregst saman heldur en til þeirra ef vinnsla eykst að nýju. Þar af leiðandi má gera ráð fyrir að að með minni afla upp úr sjó muni íbúum fækka í sjávarbyggðum. Sér í lagi á Snæfellsnesi, því svæði Vesturlands þar sem áhrifa ákvörðunar stjórnvalda mun gæta mest.

Fréttatillkynning frá Samtökum sveitarfélaga á Vesturlandi

Kynnt á blaðamannafundi 7. júlí 2007