Sameining sveitarfélaga á Vesturlandi

Samtök Sveitarfélaga á VesturlandiFréttir

Í dag kom út á vef SSV www.ssv.is skýrslan Sameining sveitarfélaga á Vesturlandi: Möguleikar nokkurra valkosta og hugsanleg áhrif þeirra árið 2014. Í skýrslunni er að finna greiningu á fýsileika fimm sameiningar-sviðsmynda á Vesturlandi. Ekki er tekin afstaða til þess hvort sameiningarnar skiluðu hreinum ábata fyrir samfélögin þar sem mat sumra þáttanna var huglægt og því ekki hægt að kvarða þá. Hins vegar eru dregnar ályktanir um æskilegustu og óæskilegustu sameiningarnar. Sameining Dala og Stranda er talin æskilegust, þá Snæfellsness, síðan Akraborgar og síst þær sameiningar sem ganga styst: Sameining Skorradalshrepps, Borgarbyggðar og Eyja- og Miklaholtshrepps annars vegar og Helgafellssveitar og Stykkishólmsbæjar hins vegar.


Sveitarfélög sviðsmyndanna eru:

 1. Skorradalshreppur, Eyja- og Miklaholtshreppur og Borgarbyggð
 2. Helgafellsveit og Stykkishólmsbær
 3. Snæfellsnes: Grundarfjarðarbær, Stykkishólmsbær, Snæfellsbær og Helgafellssveit
 4. Akraborg: Akranes, Hvalfjarðarsveit, Borgarbyggð, Eyja- og Miklaholtshreppur og Skorradalshreppur
 5. Dalir og Strandir: Reykhólahreppur, Dalabyggð og Strandabyggð

Horft var til mögulegra áhrifa sameininganna á fimm matsþætti:

 1. Gæði og aðgengi þjónustu (tvískipt í töflu)
 2. Sveitarfélagið og svæðaþróun
 3. Lýðræði og stjórnsýsla þar sem kjörsókn var tekin sérstaklega út og því tvískipt í töflu
 4. Rekstur- og fjárhagslegir þættir

Þar sem óvissa var um hreinan ábata sviðsmyndanna var gerð skoðanakönnun á samstarfsvilja sveitarstjórnarmanna á Vesturlandi og voru niðurstöður almennt vel jákvæðar í garð samstarfs. Helstu frávik frá þeirri tilhneigingu voru að:

 • Sveitarstjórar og „reynsluboltar“ voru almennt neikvæðari gagnvart samstarfi en „nýgræðingar“.
 • Fulltrúar stærri sveitarfélaga voru jákvæðari gagnvart samstarfi í núverandi samstarfsverkefnum.
 • Fulltrúar minni sveitarfélaganna voru jákvæðari gagnvart verkefnum sem lítið samstarf er um nú þegar.

Þessar niðurstöður byggja á kostnaðargreiningu allra sveitarfélaga á Íslandi á níu ára tímabili, á mati af áhrifum sameininga sveitarfélaga á búferlaflutninga, greiningu á kosningarþátttöku almennings, tveimur skoðanakönnunum auk fjölda heimilda og annarra fyrirliggjandi gagna um reynslu af sameiningum vítt og breitt.

Niðurstaða kostnaðargreiningarinnar leiddi í ljós að því fleiri sveitarfélög og ólík sem eru í hverri sameiningu því líklegra er að meðalkostnaður lækki í kjölfar sameininga. Þetta á sérstaklega við um kostnað í atvinnu- og menningarmálum. Þá mældust einnig áhrif á íþrótta- og æskulýðsmál en með mun meiri óvissu. Hins vegar bera, atvinnu- og menningarmál eingöngu 5% af heildarkostnaði sveitarfélaga en íþrótta- og æskulýðsmál 13%.

Niðurstaða skoðanakönnunar um hvort þjónusta hafi aukist í kjölfar sameiningar sveitarfélaga leiddi í ljós að hún hafi gert það. Það gildir ekki fyrir smærri sveitarfélög sameininganna.Meðal þriggja dýrustu málaflokka sveitarfélaga er þjónusta við íþrótta- og æskulýðsmál líklegust til að batna í kjölfar sameininga. Niðurstöðurnar voru allt að því hvorki/né fyrir hina tvo (félagsþjónustu og fræðslu- og uppeldismál). Spurt var um ýmislegt annað áhugavert í leiðinni og í ljós kom að viðhorf þátttakenda var það að lýðræði veikist í kjölfar sameininga, það dregur úr samkennd meðal íbúanna og neikvæðni eykst.

Stór aðhvarfsgreining var gerð þar sem reynt var að varpa ljósi á það hvort búferlaflutningar verði jákvæðari eftir sameiningar sveitarfélaga. Í ljós kom að það átti sér stað ef fá sveitarfélög voru í sameiningunni. Hins vegar urðu þeir óhagstæðari ef sveitarfélögin voru ólík að stærð og sameiningarnar voru síendurteknar.