Rétt rúmlega þriðjungur fyrirtækja á Vesturlandi hefur tekjur af menningu og listum

Samtök Sveitarfélaga á VesturlandiFréttir

Rétt rúmlega þriðjungur fyrirtækja á Vesturlandi hefur tekjur af menningu og listum. Um 5% fyrirtækja hafa tekjur menningu og listum að öllu eða miklu leyti. Tæp 30% fyrirtækja hafa tekjur að nokkru eða litlu leyti af menningu og listum en 65% fyrirtækja hafa engar tekjur af þeirri starfsemi.

Önnur framleiðsla, mannvirkjagerð, verslun, gisti- og veitingarekstur, upplýsingatækni voru marktækt frekar á þeirri skoðun að þeir hefðu tekjur af menningum og listum. Fiskveiðar, námur, orkufyrirtæki og fjármál og tryggingafyrirtæki töldu sig algerlega laus við slíkar tengingar. Engin marktækur munur var á þessari afstöðu á milli landsvæða innan Vesturlands.


Lengi hefur verið áhugi á því að vita hvert vægi skapandi greina er á Vesturlandi. Hefðbundin atvinnugreinaflokkun veitir engar slíkar upplýsingar. Þess vegna voru fyrirtæki á Vesturlandi spurð að hve miklu leyti þau hefðu tekjur af menningu og listum. Þau gátu valið á milli þess að svara; að öllu leyti, að miklu leyti, að nokkru leyti, að litlu leyti og að engu leyti. Svörin ættu því að gefa vísbendingar fyrir því hvert vægi skapandi greina er á Vesturlandi.

Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi stóðu fyrir könnuninni meðal fyrirtækja á Vesturlandi. Tæplega 200 fyrirtæki svöruðu könnuninni sem telst nokkuð gott svarhlutfall. Í könnuninni var Vesturlandi skipt upp í fjögur svæði. Þau eru kölluð Akranes og Hvalfjörður, Borgarfjarðarsvæði, Snæfellsnes og Dalir. Sveitarfélögin Akranes og Hvalfjarðarsveit voru Akranes og Hvalfjörður, Borgarbyggð og Skorradalshreppur Borgarfjarðarsvæði. Þá voru Eyja- og Miklaholtshreppur, Stykkishólmsbær, Helgafellssveit, Grundarfjarðarbær og Snæfellsbær kölluð Snæfellsnes og Dalabyggð eitt myndaði Dali.

Vífill Karlsson

Einar Þorvaldur Eyjólfsson