Vífill Karlsson, doktor í hagfræði

Samtök Sveitarfélaga á VesturlandiFréttir

Þann 15. september sl. varði Vífill Karlsson, atvinnuráðgjafi og hagfræðingur SSV doktorsritgerð sína við Háskóla Íslands. Hún fjallar um samgöngubætur og búferlaflutninga. Í ritgerðinni segir frá rannsókn á landfræðilegum áhrifum samgöngubóta á búferlaflutninga milli sveitarfélaga. Fyrst var sagt frá íbúaþróun á Íslandi og þróun samgöngukerfisins. Þar á eftir var farið yfir helstu rannsóknir á búferlaflutningum á Íslandi. Þessu fylgdi síðan umfjöllun um helstu kenningar og líkön á viðkomandi sviði og í lokin voru framkvæmdar þrjár rannsóknir.

Í fyrstu rannsókninni var samband milli samgöngubóta og íbúðaverðs greint. Samband milli fjarlægðar frá borgarmiðju og íbúðaverðs hefur löngum verið þekkt fyrir að vera neikvætt – þ.e. verðið verið hæst í borgarmiðjunni en lækkar eftir því sem fjær dregur. Hér var gerð tilraun til að meta hvort þetta samband væri til staðar í dreifbýli á Íslandi og hvort það væri ólínulegt með tilliti til fjarlægðar. Líkönum fyrir tvívíð gögn (e. panel data) var beitt við greininguna. Niðurstöðurnar voru í samræmi við það sem búist var við. Þess vegna var hægt að draga þá ályktun að samgöngubætur milli höfuðborgarsvæðisins og annarra staða utan þess hefðu meiri áhrif á fasteignaverð þeirra staða sem liggja næst borginni en þeirra sem liggja fjær.

Í annarri rannsókninni var landfræðilegt litróf íbúðaverðs til skoðunar. Landfræðilegur munur myndast á íbúðaverði vegna virðis á aðgengi sem borgir veita umfram náttúrugæði og annað skynvirði sem dreifbýlið hefur í ríkara mæli. Ef aðgengi er almenningi meira virði en skynvirði, sem oftast er raunin, verður samband fjarlægðar frá borgarmiðju og íbúðaverðs neikvætt eins og fjallað var um áður. Í fyrstu rannsókninni var sýnt fram á að þetta samband er neikvætt á Íslandi. Í þessari rannsókn var gerð tilraun til að sýna fram á að sambandið hafi orðið sterkara með tímanum, að öllum líkindum vegna breyttrar forgangsröðunar almennings og/eða vaxtar á þekkingardrifnum atvinnugreinum sem leitt hefur til aukins þéttbýlishagræðis.


Í þriðju og síðustu rannsókninni var samband samgöngubóta og búferlaflutninga mælt og prófað. Mismunandi búsetuskilyrði milli staða eru drifkraftar búferlaflutninga. Þar sem samgöngubætur hafa áhrif á búsetuskilyrði er ástæða til að ætla að þær hafi áhrif á búferlaflutninga. Kannað var hvort þetta ætti við rök að styðjast á Íslandi, strjálbýlu landi með tvo stóra þjónustukjarna. Þá var einnig kannað hvort einhver munur var á búferlaflutningum eftir kynjum. Niðurstöðurnar gáfu til kynna að áhrif samgöngubóta á búferlaflutninga eru ekki einsleitar: Samgöngubætur milli stórs þjónustukjarna og dreifðari byggða hafa neikvæð áhrif á búferlaflutninga nærliggjandi samfélaga landsbyggðarinnar en jákvæð áhrif á þau sem fjær eru, að öllum öðrum áhrifaþáttum óbreyttum. Áhugverð kynjavídd kom einnig fram í rannsókninni.