Breytt umhverfi í samstarfi sveitarfélaga.

Samtök Sveitarfélaga á VesturlandiFréttir

Fulltrúar aðalfundar ræða samstarf og framtíð sveitarfélaganna á Vesturland.
Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi eru, líkt og sambærileg samtök annars staðar á landinu að fá aukið hlutverk og vægi í samskiptum ríkis og sveitarfélaga. Þegar hafa verið flutt stór verkefni yfir til sveitarfélaganna þar sem landshlutasamtökin eru í lykilhlutverki, s.s. almenningssamgöngur og þjónusta við fatlað fólk. Einnig er það í höndum landshlutasamtakanna að vinna sóknaráætlun fyrir viðkomandi landshluta, vegna Sóknaráætlunar 20/20 á landsvísu. Stefnt er að því að fjármagn sem ríkið hefur veitt til verkefna á landsbyggðinni renni í vaxandi mæli inn í landshlutasamtökin sem sjái um úthlutun þess.

Á aðalfundi SSV sem haldinn var í Stykkishólmi um síðustu helgi, var þetta aukna hlutverk til umræðu ásamt sóknarfærum Vesturlands. Hefðbundið fundaform var brotið upp og fram fór samræða þar sem sátu saman við borð fulltrúar frá ólíkum sveitarfélögum.


Í máli ýmissa fundargesta heyrðust efasemdir um að búa til nýtt „stjórnkerfi“ sem væri jafnvel að taka yfir þætti í hlutverki sveitarstjórnanna. Niðurstaða fundarins varð þó sú að líta á þetta sem tækifæri. Mikilvægast sé á þessum tímamótum að styrkja tengslin milli sveitarfélaganna og SSV. Fjölga þurfi í stjórn, þannig að öll sveitarfélögin eigi fulltrúa eða þau minnstu þrjú eigi í það minnsta áheyrnarfulltrúa. Auka þurfi upplýsingaflæði eða „tvöfalda brúna“ milli SSV og sveitarstjórna, því endanleg ábyrgð á verkefnum liggur hjá sveitarfélögunum. Rætt var um að búa til breiðan samstarfsvettvang á Vesturlandi með aðkomu atvinnulífs, stofnana og sveitarfélaga, til að vinna að sóknaráætlun. Fagráð eða nefnd vinni úr tillögum þaðan og leggi fyrir stjórn.

Fram komu skiptar skoðanir um sameiningu sveitarfélaga en lögð áhersla á enn frekara samstarf.

Samgöngur og fjarskipti, jöfnun orkukostnaðar og grunnþjónusta í löggæslu og heilbrigðisþjónustu eru stærstu hagsmunamál Vestlendinga. Þá var rætt um sóknarfæri í ferðaþjónustu, sjávarútvegi og iðnaði, framhaldsskóla, umhverfisvottun, frumkvöðlastuðning og að styrkja ímynd Vesturlands.

Unnið verður frekar úr niðurstöðum umræðnanna og stjórn tekur þær síðan til skoðunar og eftirfylgni.

Þær breytingar á skipulagi og verklagi hjá SSV sem kallað er eftir, eins og reyndar á landsvísu, munu gerast samhliða því að aukin verkefni flytjast til samtakanna. Framundan er mótunar- og lærdómsferli þar sem mestu skiptir að sveitarfélögin eigi aðkomu, samkvæmt skilaboðum umræðunnar á aðalfundinum. Ef tekst að „tvöfalda brúna“, mun það jafnframt styrkja bakland stjórnar og starfsfólks gagnvart þeirri auknu ábyrgð sem landshlutasamtökin eru að takast á hendur.