Úrslit í ljóðasamkeppni Júlíönu og Barnó

SSVBarnó

Ljóðasamkeppni Júlíönu – hátíðar sögu og bóka í Stykkishólmi – og Barnó – BEST MEST VEST er nú lokið og sýna niðurstöður að kraftmikill sköpunarvilji býr meðal ungs fólks á Vesturlandi. Keppnin var opin öllum nemendum á mið- og unglingastigi grunnskólanna á svæðinu og bárust fjölmörg ljóð víða að.

Brynhildur Eyja Jóhannesdóttir, nemandi í 6. bekk Grunnskóla Borgarfjarðar, hlaut fyrsta sæti fyrir ljóðið „Litla ljóðið“.
Í öðru sæti varð „Hesturinn“ eftir Bjartey Ebbu Júlíusdóttur úr Grunnskólanum í Grundarfirði.
Þriðja sætið féll í hlut Carmen Bylgju Arnarsdóttur úr Grunnskóla Snæfellsbæjar – Lýsuhólsskóla, fyrir ljóðaseríuna „Ég“ og „Ég II“.

Markmið ljóðasamkeppninnar er að hvetja börn og ungmenni til skapandi skrifa, efla hæfni þeirra í tjáningu og sýna hversu fjölbreytt og öflug ljóðlist getur orðið þegar ungt fólk fær rými til að blómstra. Þátttakan í ár staðfestir að ljóðlistin á Vesturlandi er í góðum höndum.

Dómnefnd skipuðu Gunnar Theódór Eggertsson rithöfundur, Dagbjört Höskuldsdóttir ljóðaunnandi og fyrrverandi bóksali, og Eva Björg Ægisdóttir rithöfundur.

Verðlaunaafhending fer fram á Júlíönu – hátíð sögu og bóka í Stykkishólmi í mars 2026, þar sem verðlaunahafar munu koma fram og lesa ljóð sín við hátíðlega athöfn.

Keppnin er samstarfsverkefni Barnó – Best Mest Vest og Júlíönu – hátíðar sögu og bóka, sem haldin er til heiðurs skáldkonunni Júlíönu Jónsdóttur. Með henni er lögð áhersla á að efla barnamenningu og menningarsamstarf í landshlutanum. Umsjón hafði Gréta Sigurðardóttir, skipuleggjandi Júlíönu, í samstarfi við verkefnastjóra menningarmála hjá SSV.

Við óskum sigurvegurunum innilega til hamingju með verðlaunin!

 

Litla ljóðið

 

Stundum sem ég ljóð

oftast fyrir fljóð.

Ljóð geta verið sorgleg,

löng, stutt og skemmtileg.

Þú lest þau bæði dag og nótt

og að lokum færðu ljóðasótt.

En þú finnur eitthvað í þeim,

ekki gamla skóreim.

Heldur eitthvað sem að kallar til mín

og ég held það kalli líka til þín.

 

Í ljóðum oftast boðskap er að finna

og ég reyni því oftast að sinna.

Það gæti orðið lítið, ljótt

eða kannski stórt og mjótt.

Gæti orðið um tröllvaxinn risa

eða kannski lítinn kisa.

En sama hvernig ljóðin eru,

þótt þau eru ekki um lifandi veru.

Þá kalla samt ljóðin til mín

og ég held þau kalli líka til þín.

Brynhildur Eyja Jóhannesdóttir – 6. bekk í Grunnskóla Borgarfjarðar

 

 

Hesturinn

 

Sólin hátt á himni skín,
kinkar hún kolli, merin mín
Ég kembi á sólardegi.
Legg á hana hnakkinn sinn,
þetta verður dagurinn minn.

Hylling heitir hesturinn
Hesturinn er brúnálótt á kinn.
Með enga stjörnu á enni,
henni ég kenni
og hún kennir mér.

 

Bjartey Ebba Júlíusdóttir – 6. bekk í Grunnskólanum í Grundarfirði

 

 

 

 

Ég

Ég læt eins og ég meiðist ekki

þú mátt aldrei sína þína veiku bletti.

 

Ég græt oft um nætur

og stend ekki í fætur.

 

Ég fer oft að grenja

í hljóði það er venja.

 

Ég  segi oft sögur

um stelpu sem er fögur

 

Ég finn til í hjarta

ég, aldrei kvarta.

 

Ég II

Ég vil ekki tala

og vil bara fara.

 

Ég finn ekki neitt

þá verður það leitt.

Carmen Bylgja Arnarsdóttir – 7. bekk í Grunnskóla Snæfellsbæjar, Lýsuhólsskóla