Stoðkerfi atvinnulífsins


Upplýsingar tengdar fyrirtækjarekstri:

Hvar er aðstoð að finna?

Atvinnuþróunarfélög


Atvinnuþróunarfélög á hverju svæði sinna nærþjónustu við aðila í atvinnurekstri.  Á Vesturlandi er það SSV Þróun og ráðgjöf, sími 437 1318.  Til allra atvinnuþróunarfélaga á landinu er hægt að leita með ýmsar spurningar varðandi rekstur og viðskipti.

Einnig sinnir Impra (Nýsköpunarmiðstöð Íslands) þessu hlutverki á landsvísu, sími 570 7100 og býður upp á ýmis námskeið og styrki til frumkvöðla á ýmsum sviðum.

Ríkisskattstjóri


Á vef Ríkisskattstjóra er mikið af upplýsingum um rekstrarumhverfi, bókhald og skattamál, öll helstu lög og reglugerðir sem snerta rekstur fyrirtækja og upplýsingar uppfærðar fljótt og vel, ef breytingar verða á rekstrarumhverfi.

Samtök atvinnulífsins


Samtök atvinnulífsins hafa á einnig sínum snærum upplýsingar um ýmislegt varðandi rekstur og rekstrarumhverfi.

Útflutningsráð


Hyggi fyrirtæki á útflutning má benda á Útflutningsráð, en þar er í boði fræðsla og ráðgjöf á því sviði. Jafnframt eru þar upplýsingar um vörusýningar, viðskiptasendinefndir og erlenda gagnagrunna sem tengjast viðskiptum við útlönd.  Á vegum Útflutningsráðs eru oft rekin tímabundin átaksverkefni á sérhæfðum sviðum útflutnings.

Tollstjóraembættið


Allar helstu upplýsingar um innflutning vöru er hins vegar að finna hjá Tollstjóraembættinu. Þar er að finna allar helstu reglur um tollamál, tollaflokkun og tollskýrslugerð.

Einkaleyfisstofan


Einkaleyfastofa aðstoðar við útvegun einkaleyfis, hönnunarverndar og vörumerkja, hér á landi sem á alþjóða vettvangi.

Staðlaráð Íslands


Staðlaráð Íslands er vettvangur hagsmunaaðila til að vinna að stöðlun og notkun staðla á Íslandi. Staðlaráð veitir ráðgjöf, upplýsingar og þjónustu um hvaðeina er lýtur að stöðlum og stöðlun (t.d. gæðastöðllun og öryggisstöðlun).

Umhverfisstofnun og heilbrigðiseftirlit


Umhverfisstofnun og heilbrigðiseftirlit á hverju landsvæði geta gefið upplýsingar um þær kröfur sem gerðar eru til rekstrar í hinum ólíku atvinnugreinum.  Þá er átt við kröfur hvað varðar mengunarvarnarbúnað og hreinlætisaðstöðu m.a.

Ferðamálastofa


Ferðamálastofa hefur góðan alhliða upplýsingavef sem inniheldur geysilegt magn upplýsinga varðandi rekstrarumhverfi ferðamála á Íslandi, s.s. fjöldatölur, gistinýtingu, styrkjamöguleika, kynningarleiðir, lagaumhverfi ofl..

Upplýsingar um fjármögnun viðskiptahugmynda:


Konur með viðskiptahugmyndir geta leitað til neðangreindra aðila um fjármögnun viðskiptahugmynda.  Þó skal á það bent að undirbúningur fjármögnunar er talsverður og heppilegt að fá atvinnuráðgjafa til aðstoðar.  Atvinnuráðgjafar (sjá ofar um atvinnuþróunarfélög) aðstoða við mótun hugmyndarinnar, leiðbeina við það að gera hana sem arðvænlegasta og aðstoða við gerð viðskiptaáætlana og umsókna um fjármagn.  Jafnframt aðstoða þeir við upplýsingaleit og leit að sérfræðiaðstoð, sé hún nauðsynleg.

Vinnumálastofnun


Vinnumálastofnun stendur fyrir styrkjum til atvinnumála kvenna (oft kallaður kvennasjóður eða Jóhönnusjóður) sem einkum er ætlað að auka fjölbreytni í atvinnulífi, viðhalda byggð um landið og efla atvinnutækifæri á landsbyggðinni, auðvelda aðgang kvenna að fjármagni og að draga úr atvinnuleysi meðal kvenna.
Atvinnuleysistryggingasjóður styrkir sérstök verkefni á sviði atvinnuuppbyggingar á svæðum þar sem mikið er um atvinnuleysi, undir eftirliti Svæðisvinnumiðlana.

Einnig er þar staðsettur Lánatryggingasjóður kvenna. Meginmarkmið hans er að styðja konur til nýsköpunar í atvinnulífi með því að veita ábyrgðir á allt að helming lána sem þær taka hjá lánastofnun til að fjármagna tiltekið verkefni.  Ábyrgðin er veitt á grundvelli mats á arðsemi viðskiptahugmyndarinnar sjá http://www.vinnumalastofnun.is/.

Byggðastofnun


Hjá Byggðastofnun er hægt að sækja bæði um lán og styrki til atvinnuuppbyggingar á landsbyggðinni. Veitir hún styrki til margs konar nýjunga í atvinnulífi landsbyggðarinnar og lán vegna fjárfestinga þar.  Hlutverk stofnunarinnar er að stuðla að þjóðfélagslega hagkvæmri þróun byggðar í landinu. Á heimasíðu hennar er að finna gott yfirlit og vísanir á vefsíður bæði innlendra og norrænna sjóða sem veita fjármagni til atvinnuþróunar.

Framleiðnisjóður landbúnaðarins


Framleiðnisjóður landbúnaðarins hefur leitast við að styðja við frumkvæði og vænleg viðfangsefni og svara eftirspurn án þess að halda fram einu umfram annað.  Í seinni tíð hefur stuðningur sjóðsins í vaxandi mæli beinst að þróunar- og rannsóknarverkefnum sem tengjast atvinnuuppbyggingu í dreifbýli.

Framleiðnisjóður starfar ekki sem lánasjóður nema að litlu leyti en hefur stutt myndarlega við ýmsar búháttabreytingar á lögbýlum.  Styrkir nema þó aldrei meira en 30% af framkvæmdakostnaði og er hámarks styrkveiting kr. 1.750 þús. Skal umsækjandi vera með lögheimili á lögbýli.

Átak til atvinnusköpunar (sjá vef Impru) er sjóður sem er í vörslu Iðnaðar- og viðskiptaráðuneytis. Úr honum er úthlutað til verkefna sem eru á forstigi nýsköpunar og falla ekki undir verksvið annarra sem veita sambærilega fyrirgreiðslu. Einnig verkefna sem eru skilgreind sem sérstök átaksverkefni ráðuneytisins og ætlað er að hafa víðtæk áhrif en eru ekki bundin við afmarkað verk, einstakling eða fyrirtæki.

Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins


Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins veitir styrki til frumkvöðla í samstarfi við Nýsköpunarmiðstöð til afmarkaðra verkefna, en tekur einnig þátt í fjármögnun fyrirtækja sem eru í algerri nýsköpun í framleiðslu sinni.

Nýsköpunarsjóður námsmanna.
Nýsköpunarsjóður námsmanna styrkir fyrirtæki til að ráða til sín námsmenn tímabundið til afmarkaðra verkefna á ýmsum sérsviðum, s.s. á sviði vöruþróunar.

Hlutverk Samstarfsvettvangs sjávarútvegs og iðnaðar er að leiða saman fyrirtæki í sjávarútvegi og iðnaði í þeim tilgangi að efla þróun á tækjabúnaði sem eykur vinnsluvirði í útgerð og fiskvinnslu ásamt því að veita fyrirtækjum faglega og fjárhagslega aðstoð við þróunarstarfið og opna þeim réttar dyr á réttum tíma.

Annað


Markmið FKA (Félags kvenna í atvinnurekstri) er að gæta hagsmuna og efla samstöðu og samstarf kvenna í atvinnurekstri.
Félagið er opið öllum þeim konum sem eiga og reka fyrirtæki, einar eða með öðrum.

Handverk

Bækur um handverk:


Millisafnalán frá Borgarbókasafni út í héraðsbókasöfnin, en þar er til mikið efni um handverk.  Á vef Borgarbókasafnsins er auk þess mjög gott úrval tengla inn í ýmsa gagnagrunna um bækur:
Bókasafn Listaháskóla Íslands er nær eingöngu með bækur sem snúast um handverk og listir. Það er einungis opið á starfstíma skólans og erfitt fyrir gesti og gangandi að fá lánað, en gagnlegt að skoða bækur og fagtímarit, ef staldrað er við í Reykjavík. Staðsetning: Skipholt 1, 2. hæð.

Handverk og hönnun er með töluvert safn bóka í sinni eigu sem hægt er að panta að láni.  Þar er mikið um sérhæfðar bækur tengdar handverki og þar er vel tekið tillögum um aukningu á bókakosti á einstökum sviðum.  Síminn þar er: 551 7595.

Fræðsla um handverk:


Námskeið á vegum Opna Listaháskólans eru gagnleg handverksfólki, fjalla um ákveðin hráefni eða vinnslutækni.
Fræðslumiðstöð Vestfjarða, Farskóli Norðurlands vestra og Símenntunarmiðstöð Vesturlands bjóða upp á námskeið sem varða handverk og hægt er að óska eftir því að þær skipuleggi námskeið á sérstökum sviðum, ef nægilegur fjöldi þátttakenda er fyrir hendi.

Annað
Handverksfólk skal leita sér aðstoðar hjá Handverki og Hönnun eftir því sem við verður komið, en það er opinber stuðningsaðili við handverk í landinu. Ferðasjóður Handverks og Hönnunar styrkir handverks- og listiðnaðarfólk til að afla sér þekkingar í greininni, hérlendis eða erlendis. Þar er komið til móts við einstaklinga vegna náms- og/eða ferðakostnaðar.

Markaðs- og atvinnuskrifstofa Akraneskaupstaðar


Markaðs- og atvinnuskrifstofa Akraneskaupstaðar (MAK) vinnur að framgangi vænlegra hugmynda sem tengjast ativnnumálum innan sveitarfélagsins Akraneskaupstaðar og í nágrenni þess eftir því sem við á.  MAK aðstoðar fyrirtæki með ráðgjöf á sviði rekstrar, markaðsmála og fjármála.  Í atvinnumálum er MAK ráðgefandi aðili fyrir bæjarráð, bæjarstjórn, atvinnumál og e.t.v. aðrar stofnanir bæjarins. Skrifstofan vinnur að sérverkefnum á sviði nýsköpunar og atvinnumála og framgangi tillagna er lúta að því að efla atvinnulíf á og við Akranes. MAK framfylgir samþykktri stefnumótun í atvinnumálum, mótar nýja stefnu, kynnir hugmyndir og leitar leiða til nýsköpunar með almennri hvatningu og kynningu á kostum sveitarfélagsins til atvinnurekstrar.

Hægt er að hafa samband við markaðs- og atvinnufulltrúa á opnunartíma skrifstofa Akraneskaupstaðar í síma 433-1000.