Starfshópur um öldrunarmál á Vesturlandi var skipaður árið 2020 og er verkefnið eitt af áhersluverkefnum Sóknaráætlunar Vesturlands. Í Velferðarstefnu Vesturlands, sem var samþykkt árið 2019 er sett fram sem aðgerð að starfshópur skipaður fulltrúum frá sveitarfélögunum, Heilbrigðisstofnunnar Vesturlands og dvalar- og hjúkrunarheimilum í landshlutanum sé settur á laggirnar. Hlutverk starfshópsins er að kanna stöðu mála er varðar öldrunarþjónustu á Vesturlandi og leggja mat á hvernig bregaðst skuli við breyttri aldurssamsetningu þjóðarinnar.
Til að nefna dæmi um helstu verkefni hópsins þá var komið á laggirnar í samstarfi við Símenntunarmiðstöð Vesturlands námskeiðaröð sem er sérsniðin að þörfum starfsfólks sem sinnir öldrunarþjónustu á Vesturlandi. Þannig var endurmenntun starfsfólks aukin á sama tíma og þjónusta við skjólstæðinga efldist. Að auki vann hópurinn að tillögum að tilraunaverkefnum til að auka samvinnu í öldrunarþjónustu á Vesturlandi.
Að beiðni stjórnar SSV var hópnum falið að vinna greinargerð á rekstri dvalar- og hjúkrunarheimila á Vesturlandi og fól hópurinn KPMG að vinna greiðnargerð í samráði við starfshópinn. Sú greinargerð er nú tilbúin og er hún lögð fram sem fylgiskjal með skýrslu starfshópsins.
Í starfshópnum sátu Björn Bjarki Þorsteinsson forstöðumaður dvalar- og hjúkrunarheimilisins Brákarhlíðar í Borgarnesi, sem jafnframt var formaður hópsins, Ingveldur Eyþórsdóttir frá Skóla- og félagsþjónustu Snæfellinga, Svala Hreinsdóttir frá velferðar- og mannréttindasviði Akraneskaupstaðar og Þura Björk Hreinsdóttir frá HVE. Starfsmenn SSV í hópnum voru Páll Snævar Brynjarsson framkvæmdastjóri SSV og Sigursteinn Sigurðsson velferðarfulltrúi SSV.
Föstudaginn 4. febrúar klukkan 9:00 verður opinn kynningarfundur á skýrslunni og greiningu KPMG. Mun Björn Bjarki kynna skýrsluna auk þess sem Guðmundur Freyr Hermannsson frá KPMG mun fara yfir greiningu á rekstri hjúkrunarheimila á Vesturlandi.
Fundurinn er sem segir öllum opinn, og eru áhugasamir beðnir um að skrá sig á hlekknum hér eigi síðar en klukkan 16:00 fimmtudaginn 3. febrúar. Mun fundarboð vera sent í kjölfarið.