Á síðasta fundi stjórnar SSV var rætt um rafmagnsleysi, símasambandsleysi og slæmt ástand vega á Fellsströnd, Skarðsströnd og í Saurbæ í Dalabyggð. Í kjölfar umræðu samþykkti stjórn SSV eftirfarandi bókun;
„Stjórn SSV lýsir yfir þungum áhyggjum af stöðu innviða á Fellsströnd, Skarðsströnd og í Saurbæ í Dalabyggð.
Nauðsynlegt er að stjórnvöld ráðist hið fyrsta í endurbætur á raflínum á svæðinu til þess að tryggja afhendingaröryggi rafmagns, en tíðar bilanir hafa skapað ýmiskonar erfiðleika og öryggisleysi fyrir íbúa. Ljóst er að línur á svæðinu eru komnar til ára sinna og nauðsynlegt að koma raflínum í jörð og það verkefni þolir enga bið. Jafnframt er nauðsynlegt að á þessu ári verði farið í þrífösun á rafmagni til þess að tryggja starfsemi mjólkurbúa og aðra atvinnustarfsemi á svæðinu.
Þá hefur símasambandsleysi, í kjölfar bilunar á ljósleiðara, skapað mikið óöryggi fyrir íbúa en bið eftir viðgerð var löng og ljóst að íbúar í dreifðu byggðum geta átt von á því að bíða í fleiri daga eftir lagfæringum frá þjónustuaðila. Á vissum svæðum í Dalabyggð er staða á farsímasambandi það slæm að símasamband er ekki til staðar ef ljósleiðari fer út. Íbúar hafa fengið þau svör frá fjarskiptafyrirtækjum að það sé of kostnaðarsamt að bæta farsímasamband vegna þess hve fáir íbúar eru. Þá má líka benda á að íbúar geti ekki nýtt rafræn skilríki því farsímasamband er það slæmt að innskráningartími er útrunninn þegar svar berst gegnum síma. Þetta er ekki boðlegt í nútíma samfélagi.
Loks áréttar stjórn SSV mikilvægi þess að ráðist verði í endurbætur á veginum um Fellsströnd og Skarðsströnd og framkvæmdir við lagningu bundins slitlags hefjist sem fyrst.“